Tæplega 20 umsóknir bárust um þátttöku í þróunarverkefnum um samþættingu félags- og heilbrigðisþjónustu fyrir eldra fólk í heimahúsum.
Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið og heilbrigðisráðuneytið auglýstu í sumar eftir slíku samstarfi við sveitarfélög og heilbrigðisstofnanir.
Þróunarverkefnin eru hluti af aðgerðaáætluninni Gott að eldast þar sem stjórnvöld taka utan um málefni eldra fólks með nýjum hætti. Markmiðið verkefnanna er að finna góðar lausnir á samþættingu félags- og heilbrigðisþjónustu fyrir eldra fólk og flétta vandlega saman þá þætti sem ríkið sér annars vegar um og hins vegar sveitarfélögin.
Valnefnd velur sex svæði
Skilyrði fyrir þátttöku í þróunarverkefnunum sem auglýst voru var að heilbrigðisstofnun sem rekur heimahjúkrun og sveitarfélög sem reka stuðningsþjónustu væru sammála um að einn aðili ræki samþætta heimaþjónustu á tilteknu svæði; sveitarfélag, heilbrigðisstofnun eða að þau fælu í sameiningu þriðja aðila rekstur þjónustunnar.
Frestur til að sækja um rann út í síðustu viku og skipuð hefur verið valnefnd til að meta umsóknirnar. Sex svæði verða valin til þátttöku.
Fjölbreyttar aðgerðir
Undir merkjum Gott að eldast verður auk þess ráðist í aðgerðir sem hverfast um heilbrigða öldrun með alhliða heilsueflingu, sveigjanlega þjónustu og stórbættan aðgang að ráðgjöf og upplýsingum um þjónustu fyrir eldra fólk.
Allar aðgerðir miða að því að tryggja virkara og heilsuhraustara eldra fólki þjónustu sem stuðlar að því að sem flest þeirra séu þátttakendur í samfélaginu – sem allra lengst.
- Sjá nánar: Gott að eldast
Framtíðarsýnin er skýr og felur í sér að flétta þjónustuna fyrir eldra fólk vandlega saman.
Auglýsingin um þróunarverkefnin sem sett var út í sumar.