Fyrirhugaðar breytingar á lögum er varða jarðir, land og aðrar fasteignir

Forsætisráðuneytið hefur birt í samráðsgátt stjórnvalda þrjú áformaskjöl er byggja á vinnu  stýrihóps um heildstæða löggjöf og stjórnsýslu varðandi jarðir, land og aðrar fasteignir. Hópurinn er skipaður fulltrúum frá sex ráðuneytum, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Byggðastofnun, Skipulagsstofnun og Þjóðskrá Íslands, auk tveggja óháðra sérfræðinga á sviði lögfræði.

Fyrsta áformaskjalið lýtur að endurskoðun laga um landamerki nr. 41/1919. Gert er ráð fyrir að lög um landamerki verði felld úr gildi en ákvæðum um landfræðilega afmörkun fasteigna almennt, hvort heldur er innan eða utan þéttbýlis, verði bætt við lög um skráningu og mat fasteigna. Þar verði fjallað um gerð og efni landamerkjalýsinga, breytingar, hlutverk sveitarstjórna og þinglýsingu. Í því sambandi þarf að huga sérstaklega að úrlausn ágreinings, mögulegri skyldu til að ganga frá fullnægjandi afmörkun innan tiltekins tíma og þörf á fagaðilum við mælingar, gagnaöflun og framsetningu afmörkunar. Sérstök athygli er vakin á því að samkvæmt áformaskjalinu gæti komið til skoðunar að líta til ákvæða um eignaskiptayfirlýsingar í lögum um fjöleignarhús nr. 26/1994 og þess átaks og aðlögunartíma sem fylgdi í kjölfarið. Þar var kveðið á um að þinglýst eignaskiptayfirlýsing væri skilyrði fyrir þinglýsingu á eignayfirfærslu fjöleignarhúss eða hluta þess. 

Annað áformaskjalið fjallar um fyrirhugaða lögfestingu reglna varðandi sameign að jörðum en áformað er að setja nánari reglur um sameign í jarðalög nr. 81/2004 en þau gilda um lögbýli og allt land sem ekki hefur með staðfestu skipulagi verið tekið úr landbúnaðarnotum. Nánar tiltekið er gert ráð fyrir að settar verði skýrari reglur um fyrirsvarsmenn og hlutverk þeirra, nýjar reglur um boðun funda sameigenda og ákvarðanatöku og reglur um forkaupsrétt sameigenda við sölu eignar.  

Samkvæmt þriðja áformaskjalinu er gert ráð fyrir breytingum á forkaupsréttarákvæði laga um náttúruvernd nr. 60/2013 og að sett verði nýtt forkaupsréttarákvæði í lög um menningarminjar nr. 80/2012. Líkt og fram kemur í áformaskjalinu er markmiðið með lagasetningunni að í lögum sé að finna heimildir fyrir opinbera aðila til að beita forkaupsrétti að landi í þeim tilvikum þegar sjónarmið um verndun náttúru eða menningararfs þjóðarinnar kalli á slíkt inngrip af hálfu opinberra aðila, svo unnt sé að stýra aðgengi, nýtingu og uppbyggingu innviða á slíkum svæðum. Sérstök athygli er vakin á því að samhliða fyrrgreindum breytingum er gert ráð fyrir að tekið verði til skoðunar hvort  ástæða sé til að gera breytingar á sveitastjórnarlögum nr. 138/2011 og mæla fyrir um forkaupsrétt sveitarfélaga að landi.  

Sambandið hvetur sveitarfélög til að kynna sér fyrrgreind áformaskjöl og senda inn umsagnir eða eftir atvikum koma ábendingum til sambandsins.  

Þá vekur sambandið athygli á að Alþingi hefur nú til meðferðar frumvarp til breytinga á jarðalögum en breytingunum er ætlað að einfalda regluverk og stjórnsýslu jarðamála. Er þar m.a. gert ráð fyrir að felld verði brott aðkoma landbúnaðarráðherra að ákvörðunum um landskipti og lausn lands úr landbúnaðarnotum. Umsagnarfrestur er til 10. febrúar og eru sveitarfélög hvött til að senda inn umsagnir og/eða koma ábendingum við frumvarpið til sambandsins.