Funduðu með nýjum innviðaráðherra

Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, og Arnar Þór Sævarsson, framkvæmdastjóri sambandsins, funduðu með Svandísi Svavarsdóttur, nýjum ráðherra sveitarstjórnarmála, í vikunni.

Svandís tók við lyklavöldum í innviðaráðuneytinu þann 10. apríl af Sigurði Inga Jóhannssyni sem hefur tekið við fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Sigurður Ingi hafði verið innviðaráðherra, áður samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, samfellt frá árinu 2017.

Svandís hefur þónokkra reynslu af sveitarstjórnarmálum en hún var borgarfulltrúi í Reykjavík á árunum 2006- 2009 og var varaformaður stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 2007 til 2009. Á fundinum voru tækifæri og áskoranir í sveitarstjórnarmálum til umræðu og voru aðilar sammála um að fundurinn hefði verið upplýsandi og gagnlegur.