Fundaröð Landsnets um kerfisáætlun 2019-2028

Landsnet stendur nú í maí fyrir fundaröð hringinn í kringum landið sem nefnist Uppbygging fluningskerfis raforku – hver er staðan í þinni heimabyggð? Fundaröðin er liður í opnu umsagnarferli Landsnets fyrir drög að kerfisáætlun 2019-2028. Umsagnarfrestur er til 24. júní nk.

Landsnet stendur nú í maí fyrir fundaröð hringinn í kringum landið sem nefnist Uppbygging flutningskerfis raforku – hver er staðan í þinni heimabyggð? Fundaröðin er liður í opnu umsagnarferli Landsnets á drögum að kerfisáætlun 2019-2028 og fer fyrsti fundurinn fram í býtið í Reykjavík þann 14. maí. Aðrir viðkomustaðir eru Akureyri, Neskaupstaður, Grundarfjörður, Hella og Vestmannaeyjar. Síðasti fundurinn fer svo fram á Hótel Ísafirði 21. maí nk.

​Helstu breytingar frá síðustu kerfisáætlun eru m.a. þær, að nýr valkostur hefur verið settur fram um uppbyggingu meginflutningskerfisins. Sú leið snýst um að samtengja ekki landshluta og að reka þess í stað flutningskerfið sem tvær rammgerðar eyjar með veikum tengingum sín á milli. Kostir og gallar hafa verið greindir út frá tæknilegum, fjárhagslegum og umhverfislegum sjónarmiðum og bornir saman við aðra valkosti á langtímaáætlun.

Eins má nefna umfjöllun um áhrif mögulegrar vindorku á aflflæði í meginflutningskerfinu. Niðurstaða greininga sýnir að aukið vægi á vindorkuframleiðslu gerir auknar kröfur til flutningskerfisins og þar með mögulega um breyttar áherslur í uppbyggingu þess.

Þess má svo geta að kerfisáætlun Landsnets verður gefin út sem vefútgáfa og hefur áætlunin því fengið eigin undirvef á Landsnetsvefnum. Kerfisáætluninni er skipt upp í þrjá meginhluta eða langtímaáætlun um þróun meginflutningskerfisins, framkvæmdaáætlun næstu þriggja ára og umhverfisskýrslu. Á vefsvæði áætlunarinnar má svo einnig nálgast fylgiskjöl og prentvænar útgáfur af skýrslum.

Í aðfararorðum Guðmundar Inga Ásmundssonar, forstjóra Landsnets, segir m.a. að miklar breytingar séu í aðsigi í raforkumálum, sem drifnar séu áfram af hraðri tækniþróun og þeim áskorunum sem þjóðir heims standi nú frammi fyrir í loftslagsmálum. Styrking flutningskerfisins sé gríðarlega mikilvægt verkefni, þar sem takmarkanir í kerfinu eru þegar verulegar og fari vaxandi. Samhliða sé jafnframt mikilvægt að auka vægi markaðsviðskipta með rafmagn til að tryggja aðgengi nýrra endurnýjanlegra orkugjafa og bæta nýtingu orkuinnviða landsins.

Tekið er við umsögnum um drög að kerfisáætlun 2019-2028 á landsnet@landsnet.is eða með bréfapósti stíluðum á Landsnet, Gylfaflöt 9 og merktur Athugasemdir við kerfisáætlun 2019 – 2028.