Fundað um fyrirhugaðar breytingar á lögum um loftslagsmál

Fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga og umhverfisráðuneytis áttu í gær fund vegna þeirra athugasemda sem sambandið hefur gert við fyrirhugað frumvarp um breytingar á lögum um loftslagsmál. Voru fundarmenn sammála um að sveitarstjórnarstigið gegni stóru hlutverki á sviði aðgerða í loftslagsmálum og kom fram vilji af hálfu ráðuneytisins til þess að skoða mögulegar breytingar með hliðsjón af umsögn sambandsins um drög að frumvarpinu.

Fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga og umhverfisráðuneytis áttu í gær fund vegna þeirra athugasemda sem sambandið hefur gert við fyrirhugað frumvarp um breytingar á lögum um loftslagsmál. Voru fundarmenn sammála um að sveitarstjórnarstigið gegni stóru hlutverki á sviði aðgerða í loftslagsmálum og kom fram vilji af hálfu ráðuneytisins til þess að skoða mögulegar breytingar á drögum að frumvarpinu með hliðsjón af framkomnum athugasemdum sambandsins.

Meginmarkmið umræddra lagabreytinga er að styrkja stjórnsýslu í loftslagsmálum og auðvelda með því móti stjórnvöldum að ná settum markmiðum, s.s. um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda og kolefnishlutleysi.

Sambandið gerir í umsögn sinni verulegar athugasemdir og kallar í ljósi þess eftir beinni aðkomu sveitarstjórnarstigsins að áætlanagerð um aðgerðir og aðlögun vegna loftslagsbreytinga. Þá metur sambandið fyrirhugaðar breytingar á hlutverki loftslagssjóðs sem svo, að full efni standi til að spyrja að skipan sjóðsstjórnar, s.s. með tilliti til þess hvort sambandið tilnefni stjórnarmann.

Þá var einnig rætt um aðgerðaáætlun í loftslagsmálum, sem kynnt var í september 2018, og kom fram að ráðuneytið vinnur um þessar mundir að yfirferð umsagna um áætlunina.

Á fundi sambandsins og ráðuneytisins, sem fór fram í gær þann 20. febrúar, var athugasemdum í umsögn sambandsins um málið fylgt eftir. Var fundurinn afar gagnlegur að mati beggja aðila.

Frumvarpsdrögin voru birt á samráðsgátt stjórnarráðsins 31. janúar sl. og rann umsagnarfrestur út hálfum mánuði síðar eða þann 14. febrúar.

Þess má svo geta að sambandið heldur stóra ráðstefnu um loftslagsmál þann 28. mars nk. á Hótel Reykjavík Natura (daginn fyrir landsþing sambandsins þann 29. mars).