Fullnægjandi aðgreining úrgangsflokka skiptir máli

Sveitarfélög hafa verið að vinna að því að innleiða viðamiklar og auknar skyldur sem lagðar hafa verið á þau um úrgangsstjórnun og innleiðingu hringrásarhagkerfis í lögum nr. 103/2021. Þau þurfa að koma á sérstakri söfnun á ákveðnum flokkum heimilisúrgangs, þ.á.m. pappír og pappa, plasti, lífúrgangi auk þess að safna blönduðum úrgangi.

Í lögunum er sérstök söfnun skilgreind sem „…söfnun þar sem úrgangsflokkum er haldið aðskildum eftir tegund og eðli til að auðvelda tiltekna meðhöndlun, svo sem undirbúning fyrir endurnotkun eða endurvinnslu”. Lögin útskýra ekki nákvæmlega í hverju aðskilnaður heimilisúrgangs eigi að felast eða hvernig hann eigi að fara fram og hófst því vinna hjá sambandinu við að komast til botns í því hvað teljist nægjanlegur aðskilnaður svo um sé að ræða sérstaka söfnun í skilningi laganna. Ein þeirra aðferða  sem  nefndar  hafa  verið  við sérstaka söfnun er  að  aðgreina mismunandi úrgangsflokka í sama ílátinu, með mismunandi plastpokum.

Niðurstaða sambandsins er sú, að þó að lögin kveði ekki skýrt á um að skylt sé að safna úrgangsflokkum sem heyra undir sérstaka söfnun hvert í sitt ílátið, þá sé vandséð að söfnun tveggja eða fleiri þessara flokka í sama ílát í plastpokum geti uppfyllt kröfur laganna miðað við þá innviði sem nú eru til staðar. Lögin gera þá kröfu að komið sé í veg fyrir að úrgangur í þessum úrgangsflokkum blandist öðrum úrgangi eða öðrum efniviði með aðra eiginleika. Einnig gera lögin kröfu um að fyrirkomulag söfnunarinnar stuðli að því að markmiðum laganna og reglugerða sem settar eru á grundvelli þeirra verði náð í sveitarfélaginu, þ.m.t. tölulegra markmið um endurvinnslu og aðra endurnýtingu.

Forsenda þess að framangreindar kröfur séu uppfylltar er að úrgangsflokkarnir haldist aðskildir í gegnum allt ferlið frá söfnun til endanlegrar meðhöndlunar. Samkvæmt þeim upplýsingum sem sambandið hefur eru aðstæður og búnaður hérlendis, annars vegar í hirðubílum og hins vegar í móttökustöðvum, ekki með þeim hætti að hægt sé að tryggja þennan aðskilnað. Sum sveitarfélög hafa innleitt tvískipt ílát og rétt er að taka fram að aðskilnaður úrgangsflokka í skiptu íláti telst fullnægjandi sérstök söfnun þar sem hægt er að sýna fram á að aðskilnaður haldist allt meðhöndlunarferlið.

Sambandið vill jafnframt benda á að kostnaðarþátttaka Úrvinnslusjóðs vegna söfnunar úrgangs í sama ílátið er minni en ef úrgangsflokkunum er safnað í aðskilin ílát, þar sem aðferðin kann að verða skilgreind sem "samsöfnun" í gjaldskrá sjóðsins. 

Lög nr. 103/2021 um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, lögum um meðhöndlun úrgangs og lögum um úrvinnslugjald (EES-reglur, hringrásarhagkerfi).