Frumvarp tengt sveitarfélögum og Covid-19

Í samráðsgátt stjórnvalda var til umsagnar drög að frumvarpi er snýr að breytingum á ýmsum lögum tengdum sveitarfélögum og Covid-19 og má þar finna drög að frumvarpi ásamt umsögnum.

Að áliti Sambands íslenskra sveitarfélaga er jákvætt að í frumvarpinu að stefnt er að því að lögfesta ákvæði um neyðarástand í sveitarfélagi. Er ákvæðið sambærilegt bráðabirgðaákvæði sem samþykkt var í upphafi kórónaveirufaraldursins er heimilar ráðherra, að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga, til að víkja frá tilgreindum skilyrðum sveitarstjórnarlaga. Síðustu mánuðir hafa sýnt að mikilvægt er að hafa slíkt ákvæði til staðar til dæmis svo heimilt sé að halda sveitarstjórnarfundi í fjarfundi. Annað dæmi gæti verið ef náttúruhamfarir eiga sér stað og rýma þarf sveitarfélag og þá þarf sveitarstjórn að funda á öðrum stað en mælt er fyrir um í samþykkt um stjórn sveitarfélags.

Efnahagsaðgerðir

Markmið frumvarpsins er einnig að tryggja sveitarfélögum svigrúm til að ráðast í auknar fjárfestingar og mæta aðsteðjandi vanda í rekstri vegna þeirra áhrifa sem kórónaveirufaraldurinn hefur haft á íslenskt efnahagslíf. Þannig er sveitarfélögum veitt heimild til að víkja frá skulda- og jafnvægisreglu sveitarstjórnarlaga til ársins 2025. Einnig er stefnt að því að setja bráðabirgðaákvæði í lög um Lánasjóð sveitarfélaga ohf. er lögfestir heimild sjóðsins til að lána sveitarfélögum til að koma til móts við rekstrarhalla sveitarfélags. Ljóst er að mörg sveitarfélög munu lenda í rekstrarhalla á árinu 2021 og hugsanlega næstu ár og er því um mikilvæga lánsheimild að ræða.

Þriðja breytingin snýr að fasteignasköttum, þ.e.a.s. að lögveðsréttur fasteignaskatta er lengdur úr tveimur árum í fjögur ár og jafnframt er sveitarfélögum veitt heimild til að lækka eða fella niður dráttarvaxtakröfur á fasteignaskattskröfur hjá gjaldendum sem eiga við verulega rekstrarörðugleika að stríða vegna kórónaveirufaraldursins eða gjaldendum sem leigja húsnæði til rekstraraðila sem sömu skilyrði eiga við. Mikilvægt er að hafa í huga að sveitarfélögum er veitt heimild til að lækka eða fella niður dráttarvaxtakröfur á fasteignaskattskröfur en er ekki skylt að gera slíkt. Hafa sveitarfélag því töluvert svigrúm á grundvelli sjálfstjórnarréttar þeirra. Gert er ráð fyrir því að velji sveitarfélög að nýta sér þessa heimild ber þeim að setja hlutlægar og skýrar reglur til að tryggja að jafnræðis verði gætt og að sambærileg mál fái sambærilega meðferð innan sama sveitarfélagsins.