Fréttir af samræmdum flokkunarmerkingum

Umhverfisstofnun hefur tekið við innleiðingu á samræmdum flokkunarmerkingum af FENÚR sem hefur séð um verkefnið frá því að merkingarnar voru innleiddar á Íslandi. Ný úttekt á vegum EUPicto sannar enn og aftur jákvætt samband á milli notkunar á samræmdum merkingum og árangurs í flokkun.  

Samband íslenskra sveitarfélaga hefur gert samkomulag við Umhverfisstofnun um að sjá um innleiðingu og leiðbeiningagjöf varðandi samræmdar flokkunarmerkingar úrgangstegunda. Umhverfisstofnun tekur við verkefninu af FENÚR, fagráði um endurnýtingu og úrgang, sem stóð að innleiðingu þeirra hér á landi fyrstu árin. Sambandið er áfram aðili að EUPicto og á fulltrúa í stýrihópi og stjórn samtakanna en fyrirspurnum og beiðnum um nýjar merkingar er beint til Umhverfisstofnunar í gegnum netfangið ust@ust.is. Hlaða má merkingunum niður á vefsíðunni úrgangur.is og er þar auk þess að finna handbók um notkun merkinganna  og aðrar upplýsingar sem þær varðar. 

Jákvæð áhrif samræmdra merkinga og flokkunar úrgangs 

EUPicto ákvað í byrjun árs að hrinda af stað úttekt á áhrifum notkunar á samræmdum merkingum úrgangstegunda. Úttektin var unnin í tengslum við undirbúningsvinnu innan Evrópusambandsins á samræmdu merkingakerfi á umbúðir en væntanleg umbúðatilskipun ESB kveður á um að umbúðir skuli merktar samkvæmt samræmdu kerfi í  þeim tilgangi að auka endurnotkun og endurvinnslu. Fulltrúar EUPicto hafa kynnt kosti samræmdu merkinganna innan ESB með það að markmiði að kerfið verði tekið upp eins og það leggur sig innan ríkja ESB. 

Meginályktanir úttektarinnar sýna enn og aftur fram á jákvæð áhrif merkinganna á árangur í flokkun og kemur m.a. fram í úttektinni að: 

  • Merkingar, hvort sem er á umbúðir eða ílát, þurfa að vera einfaldar og auðskiljanlegar en samræmda merkingakerfið fellur að báðum þessum þáttum. 
  • Samsvarandi myndir á umbúðum og ílátum fyrir úrgang skapa leiðandi kerfi sem vert er að leitast eftir til að ná fram árangri í flokkun úrgangs. 

Hér má hlaða niður úttektinni í heild sinni (á ensku): Harmonising waste labels on products and waste receptacles to guide citizen waste sorting