„Til að nýta til fulls tækifærin til sóknar og jafnframt til að takast á við áskoranirnar þá þurfum við öflug og sjálfbær sveitarfélög. Sveitarfélög sem bæði geta veitt íbúum sínum bestu þjónustu sem völ er á og unnið að hagsmunamálum þeirra og samfélagsins alls.“
„Til að nýta til fulls tækifærin til sóknar og jafnframt til að takast á við áskoranirnar þá þurfum við öflug og sjálfbær sveitarfélög. Sveitarfélög sem bæði geta veitt íbúum sínum bestu þjónustu sem völ er á og unnið að hagsmunamálum þeirra og samfélagsins alls,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra í erindi sínu á landsþingi sambandsins í morgun. Hann minntist einnig á þær miklu tæknibreytingar sem orðið hafa á undanförnum árum. Hann sagði að verkefnið Ísland ljóstengt hafi vakið heimsathygli, en með því eru 99,9 prósent heimila og fyrirtækja tengd háharða neti. „Við þurfum að hagnýta þessa tækni, sem skapar líka mikil tækfæri fyrir hinar dreifðu byggðir,“ sagði Sigurður.
Sigurður sagði í ræðu sinni að Samband íslenskra sveitarfélaga gengdi mikilvægu hlutverki sem samnefnari og samræmingaraðili fyrir hönd sveitarfélaganna, meðal annars gagnvart Stjórnarráðinu og Alþingi. Þetta hlutverk sambandsins hefur verið að eflast og styrkjast, og lýsti hann yfir ánægju með samstarfið við sambandið.
Stefna í málefnum sveitarfélaga
„Við þurfum sterk og öflug sveitarfélög, sagði Sigurður og bætti við, ég leyfi mér að segja – og taka aðeins stórt til orða – að hér sé um að ræða eina áhugaverðustu tillögu til umbóta í opinberri stjórnsýslu í langan tíma.
Ég er hins vegar sannfærður um það, gangi þessi tillaga fram og fái stuðning Alþingis, þá er stigið mjög mikilvægt skref í þá átt að efla sveitarstjórnarstigið, auka sjálfbærni sveitarfélaganna þannig að þau geti betur nýtt tækifærin sem ég nefndi áðan, bætt þjónustu við íbúana og unnið markvisst að því að ná árangri gagnvart öllum þeim áskorunum sem þau standa frammi fyrir.“
Sigurður sagði að markmið stefnunnar væru skýr:
- að sveitarfélög á Íslandi verði öflug og sjálfbær vettvangur lýðræðislegrar starfsemi,
- að sjálfsstjórn og ábyrgð sveitarfélaga verði virt
- og að tryggð verði sem jöfnust réttindi og aðgengi íbúa að þjónustu
Framtíðin er björt – en hvað vilja sveitarfélögin gera?
Í lok ræðu sinnar sagði Sigurður að tillagan fæli í sér að pólitísk forysta í sveitarfélögum um land allt verði efld. Ákvæði um íbúamark felur ekki í sér sameiningu byggðarlaga, að þeim þurfi að hlúa áfram með ráðum og dáð. Hins vegar yrði pólitíska forystan sameinuð, stjórnsýslan gerð öflugri og hagkvæmari til hagsbóta fyrir alla – þó aðallega íbúana.
„Og nú er spurningin hvað ætlið þið, kæru sveitarstjórnarmenn að gera. Hvernig sjáið þið framtíðina fyrir ykkar sveitarfélög og íbúa? Hvernig verður staðan hjá ykkur eftir 20 eða 30 ár? Verður enn til staðar frumskógur byggðasamlaga þar sem vald er framselt til þriðja aðila? Sveitarfélög sem reiða sig á fjármögnun úr miðlægum sjóðum? Eða náum við að einfalda skipulagið, efla sveitarstjórnarstigið, bæta þjónustuna við íbúana, nýta fjármagnið betur? Sjáum fyrir okkur sjálfbær og öflug sveitarfélög?
Tillaga að stefnu í málefnum sveitarfélaga er núna komin fram, hún hefur verið unnin í nánu samráði við ykkur og að miklu leyti einnig að ykkar frumkvæði. Boltinn er núna hjá ykkur.
En ég segi: Framtíðin er björt – fyrir íslensk sveitarfélög – en saman getum við gert hana enn bjartari.“