Forysta BSRB axli ábyrgð á ákvörðunum sínum

Samband íslenskra sveitarfélaga vísar alfarið á bug fullyrðingum BSRB um meint misrétti í launum milli starfsfólks sem vinnur sömu störf.

Sveitarfélögin eru leiðandi á íslenskum vinnumarkaði í baráttunni við kynbundin launamun og vinna markvisst að því að gæta jafnræðis í launum starfsfólks sveitarfélaga í sömu og/eða jafnverðmætum störfum.

BSRB hafnaði tilboði sambandsins árið 2020 um launahækkanir frá 1. janúar 2023 sem tryggt hefðu sömu laun fyrir sömu störf hjá sveitarfélögum frá 1. janúar 2023. Það tilboð sveitarfélaganna hafði legið á borðinu í sex mánuði og var efnislega það sama og Starfsgreinasambandið hafði skrifað undir í byrjun árs 2020, eða heilum tveimur mánuðum áður en BSRB skrifaði undir sinn samning.

Nú sækir BSRB leiðréttingu á mistökum sínum af mikilli hörku á sveitarfélögin með víðtækum verkfallsaðgerðum og ásökunum um að sveitarfélög mismuni starfsfólki í launum. Starfsfólki er talin trú um að vinnuveitendur þeirra mismuni þeim og sýni lítilsvirðingu. Sveitarfélögin eru útmáluð í afar ódrengilegri auglýsingaherferð sem slæmir vinnuveitendur. Ekkert er fjarri sanni. BSRB ber ábyrgð á þessari stöðu og forystufólk félagsins verður að taka ábyrgð á þeim samningum sem það skrifaði undir fyrir hönd síns félagsfólks.