Forvarnardagurinn 2020

Miðvikudaginn 7. október verður Forvarnardagurinn 2020 haldinn í flestum grunn- og framhaldsskólum landsins.

Forvarnardagurinn er haldinn á hverju hausti og er sjónum sérstaklega beint að unglingum í 9. bekk og á fyrsta ári í framhaldsskóla.

Forvarnir er viðvarandi verkefni sem snýr bæði að almenningi og þeim sem bera ábyrgð á samfélagslegum ákvörðunum og stefnumörkun. Markmið Forvarnardagsins er að vekja athygli á mikilvægum þáttum í forvarnarstarfi sem snúa að ungu fólki. Nemendur ræða um hugmyndir sínar og tillögur um tómstunda- og íþróttastarf og fjölskyldulíf sem geta eflt varnir gegn vímuefnum. Nemendur geta einnig svarað spurningu á vefsíðu Forvarnardagsins, www.forvarnardagur.is, og verður dregið úr réttum svörum 30. október nk. Verðlaunin verða afhent við hátíðlega athöfn á Bessastöðum síðar á árinu.

Forvarnardagurinn er haldinn víða erlendis að íslenskri fyrirmynd enda hefur góðum árangri verið náð hér á landi. Sem dæmi má nefna að fyrir rúmum 20 árum sögðust 42% nemenda í 10. bekk hafa neytt áfengis síðustu 30 daga en árið 2020 var talan komin í 7% (sjá mynd hér að neðan) og árið 2018 höfðu 46% nemenda í framhaldsskólum aldrei orðið ölvaðir.

Forvarnardagurinn er haldinn að frumkvæði forseta Íslands. Aðrir samstarfsaðilar að Forvarnardeginum eru Embætti landlæknis, sem sér um verkefnisstjórn dagsins, Samband íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg, Samfés, Heimili og skóli – landsamtök foreldra, Ungmennafélag Íslands, Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Skátar, Rannsóknir og greining og SAFF – Samstarf félagasamtaka í forvörnum.

Á heimasíðu Forvarnardagsins er meðal annars að finna fróðleik og myndbönd um forvarnir www.forvarnardagur.is