Forgangsverkefni að þjónusta við fatlað fólk verði fjármögnuð að fullu

Gengið hefur verið frá samkomulagi milli Sambands íslenskra sveitarfélaga og þriggja ráðuneyta um sérstaka viðbótarfjármögnun á þjónustu við fatlað fólk.

Gert er ráð fyrir að útsvarsálagning sveitarfélaga hækki um 0,22% stig gegn samsvarandi lækkun tekjuskattsálagningar ríkisins. Skattbyrði einstaklinga breytist því ekki með þessari aðgerð. Fjárhæðin sem flyst frá ríki til sveitarfélaga með þessu nemur um 5 ma.kr. á næsta ári. Viðeigandi lagabreytingar verða samþykktar á Alþingi og allar sveitarstjórnir þurfa að samþykkja 0,22% stiga hækkun útsvars fyrir áramót, svo samkomulagið raungerist. 

Sveitarfélögin hafa kallað eftir mun hærra framlagi frá ríkinu vegna þessar þjónustu, en hallinn á rekstri hennar nam um 14,2 ma.kr. á síðasta ári og líkur eru á að hallinn á þessu ári nemi svipaðri fjárhæð.

Aðilar samkomulagsins sammælast um að áfram verði unnið að greiningu á þróun útgjalda vegna þjónustunnar og leitast við að ná samkomulagi um styrkingu á fjárhagsgrundvelli hennar á næsta ári.

Þetta er áfangasigur

„Þetta er áfangasigur og sýnir vaxandi skilning á stöðunni. Forgangsverkefni okkar fram undan er að fjármagna að fullu þjónustu við fatlað fólk svo það njóti fullra mannréttinda og réttur þeirra til þátttöku í samfélaginu sé tryggður. Það er lögbundin skylda sveitarfélaga að sjá til þess að svo sé en til að þau geti staðið undir þeirri skyldu sinni hefur þurft frekara fjármagn frá ríki. Við munum áfram vinna að þessum málum því á grundvelli niðurstöðu sem er að vænta í starfshópi ríkis og sveitarfélaga sem von er á fyrir lok apríl á næsta ári en verkefni hans hefur verið að móta tillögur um kostnaðarskiptingu í málaflokki fatlaðs fólks á út frá kortlagningu á kostnaðarþróun undanfarin ár. Við höfum því væntingar um að við komumst nær lausn í þessu máli þegar þær tillögur liggja fyrir.“

Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélag

Við lítum á þetta sem uppígreiðslu

„Auðvitað hefðum við viljað fá hærri fjárhæð frá ríkinu. Þessi málaflokkur er vanfjármagnaður og það er sameiginleg ábyrgð ríkis og sveitarfélaga að takast á við það verkefni. Við lítum á þetta sem uppígreiðslu, sem ber að þakka, en það þarf engu að síður mun meira fjármagn að koma frá ríkinu til svo sveitarfélögin verði sátt við stöðuna. Við treystum á að við finnum lausn á næsta ári.“

Karl Björnsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga