Fjölsótt málþing um skólasókn og skólaforðun

Stýrihópi stjórnarráðsins í málefnum barna hefur verið falið að gera tillögur til úrbóta vegna þess vanda sem grunnskólar glíma við í skólasókn og skólaforðun. Þetta tilkynnti Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra á málþingi í dag, sem Samband íslenskra sveitarfélaga hélt í samstarfi við Velferðarvaktina og Umboðsmann barna.

Stýrihópi stjórnarráðsins í málefnum barna hefur verið falið að gera tillögur til úrbóta vegna þess vanda sem grunnskólar glíma við í skólasókn og skólaforðun. Þetta tilkynnti Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra á málþingi í dag, sem Samband íslenskra sveitarfélaga hélt í samstarfi við Velferðarvaktina og Umboðsmann barna.

Sagði ráðherra enn fremur að stjórnvöld þyrftu að taka höndum saman og brjóta niður „turna“. Var þar vísað til þeirra skila sem myndast vilja á mörkum mismunandi fagsviða og eiga það sammerkt að starfa innan eða í tengslum við grunnskólann, hvert á sínum forsendum. Stjórnvöld verða að sögn ráðherra, að geta komið sér upp heilsteyptri sýn á málið og úrræði verði að sama skapi að ná þvert yfir mennta-, félags- og heilbrigðiskerfi.

Á málþinginu kom einnig fram að samræmt skráninga- og flokkunarkerfi fyrir fjarvistir í grunnskóla skortir, að skólastjórar þurfi skýrara umboð í leyfismálum og að nálgast megi fyrirmyndir að lagalegum úrræðum vegna skólaleyfa og skólaforðunar hjá hinum Norðurlöndunum, svo að örfá dæmi séu nefnd úr þeim fróðlegu framsögum sem fluttar voru.

Auk félags- og barnamálaráðherra tóku einnig til máls Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, Siv Friðleifsdóttir, formaður Velferðarvaktarinnar, Þorsteinn Sæberg, formaður Skólastjórafélags Íslands, Salvör Nordal, umboðsmaður barna, Hákon Sigursteinsson, framkvæmdastjóri Barnaverndar Reykjavíkur og Guðríður Bolladóttir, lögfræðingur hjá Umboðsmanni barna.  Aldís Hafsteinsdóttir, formaður sambandsins boðaði forföll vegna veikinda og flutti Svandís Ingimundardóttir, skólamálafulltrúi sambandsins, ávarp í hennar stað. Nálgast má upptökur af framsögum á hlekk hér að neðan.

Þá tóku þátt í pallborðsumræðum Erna Kristín Blöndal, skrifstofustjóri í félagsmálaráðuneytinu, Ingibjörg Sveinsdóttir, sérfræðingur í heilbrigðisráðuneytinu, Jón Pétur Zimsen, aðstoðarmaður mennta- og menningarmálaráðherra, Sigrún Edda Eðvarðsdóttir, formaður stjórnar Heimilis og skóla, Sigrún Harðardóttir, lektor við félagsráðgjafadeild HÍ og Sigurrós Á. Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Sjónarhóls.

Einnig vöktu verðskuldaða athygli myndbönd sem ráðgjafarhópur Umboðsmanns barna gerði og fjalla um þá sýn sem ungt fólk hefur á skólasókn og skólaforðun.

Málþings- og umræðustjóri var Grímur Atlason, verkefnastjóri á skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar.

Alls tóku tæplega 300 þátt í málþinginu, þar af liðlega 100 manns í beinu streymi á vef sambandsins.