„Ef við ætlum að halda í fólkið okkar þurfum við öflug sveitarfélög um land allt. Við erum ekki í samkeppni hvort við annað um fólk, við erum í samkeppni við önnur lönd.“
Þetta var meðal þess sem fram kom í ræðu Heiðu Bjargar Hilmisdóttur, formanns Sambands íslenskra sveitarfélaga á 31. landsþingi sambandsins sem hófst á Grand hótel í morgun.
Dagskrárefni þessa landsþings eru af fjölbreyttum toga en eins og Heiða benti á í ræðu sinni endurspegla þau ekki nema að litlu leyti hve fjölbreyttar áskoranir sveitarfélögin eru að fást við um þessar mundir. Fyrir hádegi verður rætt um kjaramál og stöðu kjarasamninga en eftir hádegi verður sjónum beint að stöðu húsnæðismála og komu flóttafólks.
Meðal fyrirlesara eftir hádegi verða Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, Sigurður Ingi Jóhannsson ráðherra sveitarstjórnarmála og Guðmundur Ingi Guðbrandsson félags- og vinnumarkaðsráðherra.