Fjárhagsáætlanir A hluta sveitarfélaga 2022

Samband íslenskra sveitarfélaga hefur nú unnið samantekt um fjárhagsáætlanir 67 sveitarfélaga fyrir árið 2022 en í þeim búa 99,9% landsmanna.

Samantektin tekur eingöngu til A-hluta sveitarfélaga, þ.e. þeirrar starfsemi sveitarfélaga sem að hluta eða öllu leyti er fjármögnuð af skatttekjum. Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis hefur safnað útkomuspá frá sveitarfélögum og tekur það safn einnig til nær allra sveitarfélaga.  Ársreikningar sveitarfélaga fyrir árið 2021 liggja ekki fyrir og því er hér í töflum sem fréttinni fylgja gerður samanburður við fjárhagsáætlanir 2021.

Samandregnar niðurstöður

  • Sveitarfélögin gera ráð fyrir að rekstrarniðurstaða A-hluta árið 2022 verði neikvæð um 6,4 ma.kr. eða sem nemur 1,5% af tekjum. Útkomuspár benda til að rekstrarhalli hafi numið 3% af tekjum í fyrra, en fjárhagsáætlanir gerðu ráð fyrir halla upp á 5,8%.
  • Af þessum 67 sveitarfélögum reikna 32 með rekstrarhalla á árinu 2022 en 35 með afgangi.  Til samanburðar sýnir útkomuspá að 27 sveitarfélög voru rekin með afgangi og 42 með halla árið 2021.
  • Laun og tengd gjöld hafa hækkað umtalsvert umfram hækkun tekna sveitarfélaga. Fyrir 10 árum síðan, árið 2012,  námu launa og tengd gjöld réttum helmingi af tekjum. Samkvæmt fjárhagsáætlunum fyrir 2022 er gert ráð fyrir að hlutfallið verði 57%, en í útkomuspá fyrir 2021 er reiknað með 58,4%.
  • Samkvæmt fjárhagsáætlunum er gert ráð fyrir að veltufé frá rekstri muni nema um 4% af tekjum, sem bera má saman við útkomuspá 2021 sem sýnir veltufé upp á 2,7% af tekjum.
  • Áætlanir sveitarfélaga gera ráð fyrir að þau muni verja tæplega 70 ma.kr. til fjárfestinga árið 2022 sem er  16,5% af tekjum. Það er nokkur hækkun frá útkomuspá fyrir 2021 sem bendir til að sveitarfélög hafi varið um 15% af tekjum til fjárfestinga.
  • Til að fjármagna fjárfestingar gera sveitarfélögin ráð fyrir að taka ný langtímalán í ár sem nemur 55 ma.kr. Á móti verða afborganir langtímalána um 19 ma.kr.
  • Gert er ráð fyrir að skuldir og skuldbindingar sveitarfélaga verði 493 ma.kr. í árslok 2022 sem er 117% af áætluðum tekjum. Skuldahlutfallið hefur farið hækkandi undanfarin ár, það var 103% árið 2017 og útkomuspá bendir til að það hafi verið 115%  árið 2021.  

Sveitarstjórnarlögin kveða á um að fjárhagsáætlanir næsta árs séu bindandi og óheimilt að víkja frá þeim nema með sk. viðauka.  Nú liggur fyrir að sveitarfélög þurfa að gera breytingar á fjárhagsáætlunum ársins með viðauka vegna tveggja atriða. Annars vegar er um að ræða reglugerðarbreytingu um að sveitarfélögum beri að taka inn í reikninga sína hlut sinn í byggðasamlögum.  Hins vegar staðfesti fjármálaráðherra rétt fyrir jól í fyrra tillögur Félags íslenskra tryggingastærðfræðinga um  lífslíkur sem hafa veruleg áhrif á mat á lífeyrisskuldbindingum og lækka þar með rekstrarafgang og hækka skuldastöðu sveitarfélaga.

Með þessari frétt fylgja samandregnar fjárhagsáætlanir fyrir árið 2022; rekstrar- , efnahagsreikningur og sjóðstreymi. Til samanburðar er sýnd fjárhagsáætlun ársins 2021. Rétt er að benda á að sveitarfélög gerðu ráð fyrir mun hægari aukningu tekna og mun minni verðbólgu en raun varð í fjárhagsáætlun 2021.  

Rekstrarreikningur A-hluta sveitarfélaga 2022 og 2021

Efnahagsreikningur A-hluta sveitarfélaga 2022 og 2021

Sjóðstreymi A-hluta sveitarfélaga 2022 og 2021