Fjárfesting í röddum kennara, skólastjórnenda og annars starfsfólks skóla um allt land

Mennta- og barnamálaráðherra í samvinnu við Kennarasamband Íslands og Samband íslenskra sveitarfélaga, óskar eftir umsóknum um styrki frá kennurum, skólastjórnendum og öðru starfsfólki skóla á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi sem hafa áhuga á því að taka virkan þátt í samráði vegna ritunar frumvarps til nýrra laga um skólaþjónustu.

Markmið með veitingu styrkjanna er að finna áhugasama aðila sem vinna með börnum á hverjum degi um land allt, vilja deila sinni reynslu og röddum til uppbyggingar nýrrar skólaþjónustu á Íslandi, og veita þeim og þeirra skólum svigrúm til þess.

Úthlutun styrkja verður á grundvelli tillagna nefndar sem skipuð er fulltrúum mennta- og barnamálaráðuneytisins, Sambands íslenskra sveitarfélaga og stjórnar Kennarasambands Íslands. Miðað er við að styrkfjárhæðir séu á bilinu 200.000 kr. til 3.000.000 kr. og fer upphæð styrkja eftir umfangi og eðli þátttöku, t.d. vegna greiðslu launa í afleysingum fyrir starfsmann sem hyggst taka þátt í samráði í ákveðinn tíma, vinnu starfsmanna að samráði utan hefðbundins vinnutíma og ferðalaga. Samráðið mun fara fram á tímabilinu janúar til maí 2023.

Sótt er um styrk á mrn@mrn.is þangað sem jafnframt má senda beiðnir um frekari upplýsingar. Umsókn skulu fylgja upplýsingar um umsækjanda, störf og reynslu, eðli og umfang mögulegrar þátttöku viðkomandi í komandi samráði auk samþykkis skólastjórnanda eftir atvikum.

Umsóknarfrestur er til og með 15. janúar 2023.