Evrópusáttmáli um Jafna stöðu kvenna og karla í sveitarfélögum – 15 árum síðar

Í ár fagna Evrópusamtök sveitarfélaga 15 ára afmæli Evrópusáttmála um Jafna stöðu kvenna og karla í sveitarfélögum. Af því tilefni verður þessum merka áfanga fagnað en á sama tíma fer af stað vinna við að endurskoða og uppfæra sáttmálann.

Sáttmálanum er ætlað að leggja línurnar fyrir jafna stöðu karla og kvenna í sveitarfélögum og stuðla að því að innan sveitarfélaga sé markvisst unnið að jafnri stöðu karla og kvenna.

Sáttmálanum er einkum beint að kjörnum fulltrúum og með því að skrifa undir sáttmálann senda viðkomandi sveitarfélög skýr skilaboð þess efnis að hugað verði að jafnri stöðu kynjanna þegar kemur að allri ákvörðunartöku, verkefnum og framtíðarskipulagi sveitarfélagsins.

Í dag hafa tæplega 2.000 evrópsk sveitarfélög skrifað undir sáttmálann og á þeim lista er meðal annars að finna sex íslensk sveitafélög: Akraneskaupstaður, Akureyrarbær, Hafnarfjarðarbær, Kópavogsbær, Mosfellsbær og Reykjavíkurborg.

Ljóst er að margt hafi áunnist hér á landi undanfarin 15 ár. Sem dæmi má nefna að verulega hallaði á konur í sveitarstjórnum fyrir 15 árum, en þá voru einungis 28% sveitarstjórnarfólks konur. Í dag er hlutfallið 53% karlar og 47% konur.

En betur má ef duga skal og þó svo að margt af því sem sáttmálinn inniheldur hafi staðist tímas tönn þá eru 15 ár langur tími. Þess vegna var ákveðið að 15 ára afmæli sáttmálans væri best fagnað með því að endurskoða og uppfæra sáttmálann. Þess vegna munu Evrópusamtök sveitarfélaga standa fyrir röð vinnustofa þar sem farið verður í gegnum sáttmálann, kafla fyrir kafla, grein fyrir grein. Vinnustofurnar munu standa yfir frá júní til nóvember og stefnt er að því að uppfærður sáttmáli verði tilbúinn í lok árs.

Samband íslenskra sveitarfélaga mun taka þátt í þessari vinnu. Þeir sem vinna með þennan málaflokk hjá íslenskum sveitarfélögum og hafa áhuga á að taka þátt í endurskoðun sáttmálans eru hvattir til að hafa samband við forstöðumann Brussel skrifstofu sambandsins: ottarfreyr@samband.is

Nánari upplýsingar um sáttmálann er að finna hér: https://charter-equality.eu/good-practices/role-de-prestataire-de-services-en.html