Evrópusamtök sveitarfélaga (CEMR) hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem þau fordæma aðgerðir stjórnvalda gegn mótmælendum í Hvíta Rússlandi í kjölfar forsetakosninga 9. ágúst 2020.
Í yfirlýsingu samtakanna er ákall til stjórnvalda í Hvíta Rússlandi um að láta af öllu ofbeldi og virða mannréttindi. Stríðandi fylkingar þurfi að ræði saman á friðsaman hátt. Kosningarnar hafi ekki verið í samræmi við alþjóðlegur reglur um framkvæmd kosninga. Aðrar kosningar þurfi að fara fram undir alþjóðlegu eftirliti.
Þá hvetja samtökin leiðtoga Evrópusambandsins og aðildarríkja til að styðja við sáttaumleitanir í samstarfi við nágrannaríki og að nýjar kosningar fari fram. Þess má geta að leiðtogar Evrópusambandsins samþykktu á neyðarfundi þann 19. ágúst 2020 að viðurkenna ekki niðurstöður kosninganna í Hvíta Rússlandi.
Samtökin hvetja stofnanir Evrópusambandsins til að styðja við bakið á frjálsum félagasamtökum í Hvíta Rússlandi, þ. á m. samtökum sem vinna að framgangi staðbundins lýðræðis og sjálfstjórnar sveitarfélaga. Evrópsk sveitarfélög og svæði séu tilbúin til að styðja við bakið á lýðræðislegri þróun í Hvíta Rússlandi, m.a. í gegnum vinabæjarsamstarf.