Ekki sjálfgefið að kosningaþátttaka aukist

Samband íslenskra sveitarfélaga telur mikilvægt, að grundvallarbreytingar á kosningarétti byggi á vönduðum grunni. Tilraunaverkefni í Noregi leiddi t.a.m. í ljós, að lækkun kosningaaldurs í 16 ár hefði lítil áhrif á kosningaþátttöku ungs fólks á aldrinum 16-18 ára.

Samband íslenskra sveitarfélaga telur mikilvægt, að grundvallarbreytingar á kosningarétti byggi á vönduðum grunni. Tilraunaverkefni í Noregi leiddi t.a.m. í ljós, að lækkun kosningaaldurs í 16 ár hefði lítil áhrif hvað kosningahegðun snerti til lengri tíma litið.

Umsögn sambandsins liggur nú fyrir vegna frumvarps á Alþingi um lækkun kosningaaldurs í 16 ár. Tekið er undir þær áhyggjur sem koma fram í greinargerð þess að kosningaþátttaka, sér í lagi hjá ungu fólki, fari minnkandi. Það breytir þó ekki, að mati sambandsins, þeirri meginreglu að grundvallarbreytingar á reglum um kosningarétt verði að byggja á traustum grunni.

Skoða þyrfti kjörgengisaldur betur

Á meðal þess sem sambandið telur að skoða þurfi sérstaklega er kjörgengi 16 ára ungmenna, sem hafa ekki öðlast sjálfræði eða fjárræði. Nauðsynlegt er einnig að skoða fyrirfram þau lögfræðilegu álitaefni sem gætu komið upp vegna setu ólögráða ungmennis í sveitarstjórn, sem er enn undir forsjá foreldra sinna. Slík breyting kalli að öllum líkindum á breytingar á fleiri lögum en eingöngu þeim sem eiga við um kosningar til sveitarstjórnar.

Þá kemur í greinargerð frumvarpsins m.a. fram að í Austurríki öðlast ungmenni kosningarétt 16 ára en kjörgengi öðlist þau ekki fyrr en við 18 ára aldur.

Einnig þarf að hafa hugfast að í óbundnum kosningum, þegar og ef enginn er í framboði, skulu þeir sem hljóta kosningu og eru heilsuhraustir og yngri en 65 ára, taka sæti í sveitarstjórn. Einnig ræðst kjörgengi í nefndir sveitarfélaga almennt af því hvort viðkomandi er kjörgengur til setu í sveitarstjórn. Þá má minna á, að sveitarstjórnarmenn geta orðið persónulega ábyrgir fyrir ákvörðunum sveitarstjórna.

Þátttaka 18-21 árs jókst á milli kosninga

Einnig þarf að mati sambandsins skoða hvort aðrar aðgerðir séu vænlegri til árangurs en lækkun kosningaaldurs. Almenn þátttaka í sveitarstjórnarkosningum í Danmörku árið 2013 jókst sem dæmi um 6% og um 13% á meðal 18-21 árs ungmenna. Þessi athyglisverði árangur hefur aðallega verið þakkaður vel útfærðu kynningarátaki sem farið var gagngert í fyrir kosningarnar.

Í fylgiskjali með umsögninni er samantekt um stöðu þessara mála á hinum Norðurlöndunum. Í hnotskurn er staðan sú, að aðrar aðgerðir en lækkun kosningaaldurs í 16 ár eru í forgangi í tengslum við minnkandi kosningaþátttöku.

Atkvaedagreidsla-kjorstad