Gæta verður að meðalhófsreglu nýrra persónuverndarlaga, þegar starfsmönnum er veittur aðgangur að persónugreinanlegum upplýsingum. Í úrskurði Persónuverndar vegna aðgangs starfsmanna sveitarfélags að upplýsingum í þjóðskrá, kemur fram að meðalhófsregla persónuverndarlaga takmarki aðgang að upplýsingum við þá sem þurfi nauðsynlega á þeim að halda starfs síns vegna.
Gæta verður að meðalhófsreglu nýrra persónuverndarlaga, þegar starfsmönnum er veittur aðgangur að persónugreinanlegum upplýsingum. Í úrskurði Persónuverndar vegna aðgangs starfsmanna sveitarfélags að upplýsingum í þjóðskrá, kemur fram að meðalhófsregla persónuverndarlaga takmarki aðgang að upplýsingum við þá sem þurfi nauðsynlega á þeim að halda starfs síns vegna. Sveitarfélög þurfa því að takmarka aðgang starfsmanna að þeim upplýsingum sem þeir þurfa nauðsynlega að hafa aðgang að.
Aðdragandi málsins er sá, að í desember á síðasta ári barst Persónuvernd kvörtun vegna ótakmarkaðs aðgangs starfsmanna Reykjavíkurborgar að þjóðskrárupplýsingum. Að kvörtuninni stóð fyrrverandi starfsmaður borgarinnar, sem taldi að starfsmenn gætu notað upplýsingar úr þjóðskrá sér í óhag.
Öllum starfsmönnum Reykjavíkurborgar, sem hafa aðgang að tölvu við störf sín, er veittur aðgangur að ítarlegri þjóðskrá á innri vef borgarinnar, þ.e. bæði grunn- og viðbótarupplýsingum. Í skýringum Reykjavíkurborgar kom m.a. fram að unnið væri samkvæmt samningi við Þjóðskrá Íslands (þá Hagstofu Íslands) frá árinu 2004 og að upplýsinga- og tæknideild sveitarfélagsins héldi utan um aðganginn og gætti þess að öll vinnsla og öryggisráðstafanir væru í samræmi við persónuverndarlög. Aðeins væri heimilt að nota upplýsingarnar í þágu starfa starfsmanna og að þeir væru bundnir þagnarskyldu um atriði sem þeir fengju vitneskju um í starfi sínu.
Grunnskrá hefur að geyma nafn einstaklings, kennitölu, heimili, póstnúmer, póststöð, bannmerkingu og, eftir atvikum, nafn og póstfang umboðsmanns einstaklings sem búsettur er erlendis. Viðbótarupplýsingar geyma nafnnúmer, fjölskyldunúmer, lögheimiliskóða, kyn, hjúskaparstöðu, ríkisfang, fæðingarstað, fæðingardag, makakennitölu, lögheimiliskóða, dagsetningu breytinga, aðseturskóða, dagsetningu nýskráningar, síðasta lögheimili á Íslandi, hvort hlutaðeigandi sé nýr á skrá, heimilisfang, afdrif, dagsetningu brottfellingar og breytingu á nafni eða kennitölu.
Persónuvernd telur að aðgangur Reykjavíkurborgar að bæði grunnskrá og viðbótarupplýsingum er starfsmönnum nauðsynlegur, svo að þeir geti rækt lögbundin verkefni sveitarfélagsins, sbr. 9. grein nýrra laga um persónuvernd. Þó að fullnægjandi vinnsluheimild liggi fyrir í lögum þurfi vinnslan jafnframt að fullnægja meðalhófskröfu sömu laga þess efnis, að upplýsingarnar skuli vera viðeigandi og ekki umfram það sem nauðsynlegt er miðað við tilgang vinnslunnar.
Persónuvernd telur því í ljósi meðalhófskröfunnar að svo víðtækur þjóðskráraðgangur sem starfsmenn borgarinnar hafa sé ekki í samræmi við lögin. Hefur Reykjavíkurborg frest til 30. nóvember til að fylgja úrskurðinum eftir og afmarka aðgang að þjóðskrá við þá starfsmenn sem sannarlega þurfa slíkan aðgang starfa sinna vegna.
Er því ástæða fyrir sveitarfélög til að fara yfir aðgangsheimildir starfsmanna sinna að þjóðskrá, sem og öðrum upplýsingum, og tryggja að meðalhófskröfu nýrra persónuverndarlaga sé fylgt og takmarka aðgang starfsmanna við upplýsingar er þeir þurfa á að halda við störf sín.