Lögð hafa verið fram til kynningar drög að fyrstu heildarstefnu ríkisins í almenningssamgöngum. Markmið stefnunnar er að stuðla að umhverfisvænni, öruggari og þjóðhagslega hagkvæmari umferð um land allt samfara aukinni notkun almenningssamganga. Þá eru almenningssamgöngur skilgreindar út frá einu og samþættu leiðarkerfi fyrir flug, ferjur og almenningsvagna á öllu landinu. .
Lögð hafa verið fram til kynningar drög að fyrstu heildarstefnu ríkisins í almenningssamgöngum. Markmið stefnunnar er að stuðla að umhverfisvænni, öruggari og þjóðhagslega hagkvæmari umferð um land allt samfara aukinni notkun almenningssamganga. Þá eru almenningssamgöngur skilgreindar út frá einu og samþættu leiðakerfi fyrir flug, ferjur og almenningsvagna á öllu landinu.
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, kynnti drögin í dag, sem hafa verið birt á samráðsgátt stjórnarráðsins undir yfirskriftinni Ferðumst saman - drög að stefnu í almenningssamgöngum. Auk þess sem stefnt er að einu samtengdu leiðakerfi fyrir allar almenningssamgöngur er lögð fram tillaga að fimm stærri skiptistöðvum á höfuðborgarsvæðinu, Borgarnesi, Akureyri, Egilsstöðum og Selfossi.
Einnig er gert ráð fyrir sjö minni skiptistöðvum á afmarkaðri svæðum, að upplýsingar um leiðakerfi verði í einni sameiginlegri upplýsingagátt, að kaupa megi einn farmiða alla leið, að fargjöld verði lækkuð og þjónustan gerð aðgengilegri almenningi, svo að dæmi séu nefnd um leiðir í stefnudrögunum.
Umsagnarfrestur á samráðsgáttinni um stefnudrögin er til og með 7. mars. Þá er á vegum ráðuneytisins stefnt að fundi um mótun almenningssamgöngustefnu þann 28. febrúar nk.
- Ferðumst saman - drög að stefnu í almenningssamgöngum á samráðsgátt stjórnarráðsins
- Ferðumst saman - stefna ríkisins í almenningssamgöngum (kynningarglærur ráðherra)
Ljósmynd: Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, að fjalla um drög að stefnu í almenningssamgöngum á kynningarfundi í Perlunni Reykjavík fyrr í dag.