Drög að stefnu um Hvítbók um aðlögun að loftslagsbreytingum

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 129/2021, „Hvítbók um aðlögun að loftslagsbreytingum — Drög að stefnu“. Umsagnarfrestur er til og með 24.06.2021.

Frá Jökulsárlóni. Ljósm: Ingibjörg Hinriksdóttir

Hvítbókin inniheldur umfjöllun um aðlögun að loftslagsbreytingum og tillögu að grunngildum og grunnmarkmiðum stjórnvalda vegna hennar auk sértækra markmiða fyrir tiltekna málaflokka og samhæfingu aðlögunarvinnu.

Aðlögun að loftslagsbreytingum felur í sér aðgerðir sem snúa að því að auka viðnámsþrótt samfélagsins gagnvart áhrifum og afleiðingum loftslagsbreytinga. Slíkar aðlögunaraðgerðir geta haft samlegð með öðrum loftslagsaðgerðum sem miða að því að auka kolefnisbindingu eða samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda en hafa það ekki að meginmarkmiði.

Hvítbók um aðlögun að loftslagsbreytingum er undanfari stefnu sem verður grundvöllur þeirrar áætlanagerðar sem mælt er fyrir í lögum. Athyglinni er fyrst beint að viðfangsefninu aðlögun að loftslagsbreytingum, áhrifum þeirra og þeirri náttúruvá sem þeim fylgja. Þá er fjallað um mismunandi þætti samfélagsins þar sem aðlögunar kann að vera þörf: skipulag, vatn og fráveitur, orkumál, samgöngur, atvinnuvegi, þjóðarhag, lýðheilsu og félagslega innviði. Að lokum er farið yfir núverandi stofnanagerð, samþættingu aðlögunarvinnu og næstu skref.

Ákvarðanataka og aðgerðir eiga að byggja á bestu fáanlegu vísindalegu upplýsingum og fela í sér að tekið sé tillit til áhættumats og viðmiða um ásættanlega áhættu fyrir samfélag og lífríki frammi fyrir loftslagsbreytingum.

Samband íslenskra sveitarfélaga hvetur sveitarfélög til að kynna sér drögin að stefnunni og senda inn umsagnir um hana.