Samband íslenskra sveitarfélaga styður ekki drög að reglum um sérkröfur til skólabifreiða nái fram að ganga óbreytt, aðallega fyrir þá sök að umræddar reglur hafa ekki verið kostnaðarmetnar, með tilliti til mögulegra áhrifa þeirra á fjárhag sveitarfélaga. Þá er það álit sambandsins að reglugerðardrögin séu í ósamræmi við gildandi reglugerð um skólaakstur.
Samband íslenskra sveitarfélaga styður ekki drög að reglum um sérkröfur til skólabifreiða nái fram að ganga óbreytt, aðallega fyrir þá sök að umræddar reglur hafa ekki verið kostnaðarmetnar, með tilliti til mögulegra áhrifa þeirra á fjárhag sveitarfélaga. Þá er það álit sambandsins að reglugerðardrögin séu í ósamræmi við gildandi reglugerð um skólaakstur.
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti var með drög að reglum um sérkröfur til skólabifreiða til umsagnar á samráðsgátt stjórnarráðsins frá 1. til 22. febrúar sl.
Segir í umsögn sambandsins að öryggi barna í umferðinni skuli ætíð haft í fyrirrúmi, hins vegar sé mikilvægt að vanda við verka við allar laga- og reglusetningar og gæta að samræmi milli réttarheimilda.
Beinir sambandið þeirri áskorun til ráðuneytis samgöngumála, að kallað verði eftir því að reglugerð um skólaakstur, sem heyrir undir menntamálaráðuneyti, verði endurskoðuð samhliða fyrirhuguðum breytingum um sérkröfur til skólabifreiða, þannig að fullt samræmi verði tryggt.
Þá áréttar sambandið að ekki sé nægilegt að virkja ákvæði 2. gr. laga um farþega og farmflutninga án þess að mat verði lagt á kostnaðaráhrif þess á sveitarfélög. Jafnframt minnir sambandið á að framlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga verði að skoða í heildarsamhengi. Aukist framlög vegna eins þáttar, gæti það haft áhrif til lækkunar gagnvart öðrum rekstrarþáttum hjá sveitarfélögum.
Jafnframt standa efni til þess, að mati sambandsins, að ráðuneytið kanni hvort regludrögin samræmist að öllu leyti Evrópureglugerðum um gerð og útbúnað skólabifreiða, áður en lengra er haldið með málið, svo að reglur hér á landi verði ekki meira íþyngjandi en málefnaleg sjónarmið standa til.