Drög að reglugerð um íbúakosningar sveitarfélaga í samráðsgátt

Sambandið vekur athygli sveitarstjórnarfólks á því að drög að reglugerð um íbúakosningar sveitarfélaga hafa verið birt í samráðsgátt stjórnvalda til umsagnar.

Öll hafa tækifæri til að senda inn umsögn eða ábendingar en frestur til að skila umsögn er til og með 28. nóvember 2022. Í reglugerðinni eru sett fram lágmarksatriði sem fram þurfa að koma í reglum sveitarfélaga um íbúakosningar.

Gerðar voru breytingar á ákvæðum sveitarstjórnarlaga um íbúakosningar, sem fram fara á vegum sveitarfélaga, þegar lög nr. 83/2022, voru samþykkt á Alþingi í sumar. Ýmsar ástæður voru fyrir breytingunum. Sveitarstjórnarlög voru m.a. óljós um þær reglur sem eiga að gilda um íbúakosningar þar sem vísað var til kosningalaga með mjög almennum hætti, kröfurnar sem kosningalög gerðu til íbúakosninga sveitarfélaga voru íþyngjandi og kostnaðarsamar og þá lék vafi á því hvaða ráðuneyti hefði leiðbeiningarhlutverk vegna íbúakosninga sveitarfélaga, þar sem sveitarstjórnarlög falla undir ráðuneyti sveitarstjórnarmála en kosningalög undir ráðuneyti dómsmála. 

Nú er mælt fyrir um í sveitarstjórnarlögum að íbúakosningar sveitarfélaga fari fram á grundvelli reglna sem sveitarfélög setja sér sjálf, en ráðuneyti sveitarstjórnarmála skal setja reglugerð þar sem mælt er fyrir um þær lágmarkskröfur sem gera þarf til íbúakosninga sveitarfélaga. Vinna hefur staðið yfir í haust um gerð reglugerðar um íbúakosningar og hefur vinnan farið fram í miklu samráði við landskjörstjórn og dómsmálaráðuneytið, auk þess sem Samband íslenskra sveitarfélaga, Þjóðskrá Íslands og Reykjavíkurborg hafa yfirfarið drög af reglugerðinni.

Helsti munurinn á íbúakosningum sveitarfélaga og kosningum sem fram fara á grundvelli kosningalaga eru eftirfarandi:

  • Íbúakosningar fara fram á ákveðnu tímabili og ekki er hefðbundinn kjördagur. Tímabilið getur verið minnst 2 vikur og að hámarki 4 vikur.
  • Gert er ráð fyrir að ekki fari fram utankjörfundaratkvæðagreiðsla við íbúakosningar sveitarfélaga. Þess í stað er gert ráð fyrir að sveitarfélög hafi póstkosningu sem mælt er fyrir um í reglugerðinni.
  • Mismunandi kröfur eru gerðar til íbúakosningu sem er bindandi og ráðgefandi íbúakosningu.

Skoða drög að reglugerð í samráðsgátt