Drög að lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun í umsagnarferli

Athygli sveitarfélaga er vakin á því að í samráðsgátt stjórnvalda eru til umsagnar drög að breytingu á lögum nr. 48/2011, um verndar- og orkunýtingaráætlun (málmeðferð virkjunarkosta í vindorku). Upphaflegur umsagnarfrestur um málið var til 5. febrúar en að beiðni sambandsins hefur hann verið framlengdur til 10. febrúar. Sveitarfélög og landshlutasamtök þeirra eru hvött til þess að kynna sér frumvarpið og veita um það umsögn ef þau telja ástæðu til.

Mynd: Luke Thornton á Unsplash

Frumvarpið byggir að stærstu leyti á greiningu og tillögum starfshóps þriggja ráðuneyta. Markmið frumvarpsins er að aðlaga lög 48/2911 betur að séreðli vindorkunnar með þeim hætti að landssvæði verði að meginstefnu til flokkað í þrjá flokka landssvæða með tilliti til hagnýtingar vindorku:

  • Flokkur 1. Mælt yrði fyrir um að ekki yrðu byggð vindorkuver á landssvæðum í þessum flokki og að stjórnvöldum væri óheimilt að veita leyfi fyrir slíkum virkjunarkostum eða taka þá til meðferðar.
  • Flokkur 2. Þar féllu undir svæði sem gætu í eðli sínu almennt verið viðkvæm fyrir uppbyggingu vindorkuvera eða annarri mannvirkjagerð, en virkjunarkostir í vindorku innan slíkra svæða gætu þó komið til greina að uppfylltum tilteknum skilyrðum, meginreglum og viðmiðum og að undangengnu mati verkefnisstjórnar rammaáætlunar.
  • Flokkur 3. Þar yrðu um að ræða landsvæði sem hvorki teldust falla í flokk 1 né í flokk 2. Ákvörðunarvald um framhald virkjunarkosta á svæði í flokki 3 yrði þá hjá sveitarfélagi og öðrum stjórnvöldum að uppfylltum almennum reglum og skipulagsgerð einstakra sveitarfélaga, lögbundnu umhverfismati o.s.frv.

Í tillögum starfshópsins er gert ráð fyrir að við mat á virkjunarkostum í vindorku innan rammaáætlunar verði horft til sérstakrar stefnumörkunar stjórnvalda, meginreglna og viðmiða sem sett yrði fram í formi tillögu til þingsályktunar. Í slíkri þingsályktunartillögu yrði annars vegar gerð grein fyrir þeim svæðum sem féllu undir svæði 1. og svæði 2. skv. frumvarpinu og hins vegar þeim meginsjónarmiðum sem fylgja þarf við skoðun og mat á vindorkukostum sem eru á svæðum í flokki 2.

Fram kemur í frumvarpinu að hér er horft nokkuð til sambærilegrar hugmyndafræði og þróuð var í Skotlandi sem hefur hins vegar verið aðlöguð að íslenskum aðstæðum. Drög að stefnumörkun stjórnvalda sem lögð er til í skýrslu starfshópsins og gert er ráð fyrir í frumvarpi til breytinga á lögum nr. 48/2011, um verndar- og orkunýtingaráætlun liggur fyrir og er hluti af þeim gögnum sem fylgja með frumvarpsdrögunum.

Rétt þykir að vekja athygli á að skv. 3. gr. frv. er verndar- og orkunýtingaráætlun ekki bindandi gagnvart vindorkukostum. Sjá m.a. eftirfarandi ummæli í greinargerð:

Í þessu sambandi þarf að hafa í huga að hlutaðeigandi stjórnvöldum er einungis heimilt, en ekki skylt, að veita leyfi vegna þess virkjunarkosts í samræmi við almenn lög og þau skilyrði sem þar koma fram, enda sé gert ráð fyrir slíkri starfsemi í skipulagsáætlunum sveitarfélags.

Fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga og Samtaka orkusveitarfélaga áttu gagnlegan fund með fulltrúum umhverfis- og auðlindaráðuneytisins þar sem þeir fengu kynningu á frumvarpinu og drögum að stefnumörkun, ásamt því að skipst var á skoðunum um málið. Af hálfu sveitarfélaga var lögð áhersla á að vanda þarf samráð við sveitarfélögin um málið ásamt því að gæta vel að tengslum lagabreytinga og stefnu um vindorkunýtingu við fyrirhugaðar viðbætur við landsskipulagsstefnu 2015-2026.

Upplýsingar um frumvarpsdrögin á Samráðsgátt stjórnvalda