Með borgarstefnu er markmiðið að styðja við þróun borgarsvæða sem drifkraft velsældar, fjölbreyttari búsetukosta og aukinnar samkeppnishæfni landsins.
Drög að borgarstefnu eru aðgengileg í samráðsgátt stjórnvalda og hægt verður að senda inn athugasemdir til 22. mars næstkomandi. Í kjölfarið verður unnin þingsályktunartillaga um borgarstefnu sem stefnt er á að lögð verði fram á Alþingi í haust. Tillagan gerir ráð fyrir að tvö borgarsvæði verði skilgreind á Íslandi. Í því felst annars vegar að styrkja höfuðborgarhlutverk Reykjavíkur, höfuðborgarsvæðið og áhrifasvæði þess. Hins vegar að festa Akureyri í sessi sem svæðisborg og skilgreina og efla hlutverk hennar og áhrifasvæði.
Styðji við aukna samkeppnishæfni landsins
Drög að borgarstefnu eru unnin af starfshópi sem innviðarráðherra skipaði í samræmi við markmið byggðaáætlunar sem Alþingi samþykkti árið 2022. Í starfshópnum eru Ingvar Sverrisson, framkvæmdastjóri Aton.JL, sem er formaður hópsins, Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs í Reykjavík, Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi í Reykjavík, Gunnar Már Gunnarsson, bæjarfulltrúi á Akureyri, Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra og Páll Björgvin Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Með hópnum starfa Ásdís Sigurbergsdóttir, ráðgjafi hjá Aton.JL, Jóhanna Sigurjónsdóttir, sérfræðingur í innviðaráðuneytinu og Reinhard Reynisson, sérfræðingur hjá Byggðastofnun.
Við vinnu starfshópsins voru höfð til grundvallar viðmið OECD mótun og inntak borgarstefnu, skýrsla um svæðisbundið hlutverk Akureyrar og vinna starfshóps um mótun höfuðborgarstefnu.
„Með drögum að borgarstefnu er lagður grunnur að umræðu um núverandi stöðu og framtíðarsýn fyrir borgarsvæðin. Þá eru sett fram lykilviðfangsefni sem þarf að sinna til að borgarsvæðin geti þróast með þeim hætti að þau styðji við vaxandi velsæld, fjölbreyttari búsetukosti og aukna samkeppnishæfni landsins,“ segir Ingvar Sverrisson formaður starfshópsins. „Í okkar vinnu höfum við átt samráð við hagaðila og sérfræðinga á báðum svæðum. Það er ekki síður mikilvægt að fá fram skoðanir og álit almennings og annarra hagaðila og því hvetjum við fólk til að kynna sér drögin og senda umsögn sína inn í samráðsgáttina.“
Efling og þróun tveggja borgarsvæða
Með borgarstefnu er markmið stjórnvalda að stuðla að aukinni langtímahugsun og samhæfingu í stefnumótun ríkis og sveitarfélaga með heildarhagsmuni íbúa landsins að leiðarljósi. Þannig verði samkeppnishæfni landsins efld og vexti þjóðarinnar mætt með því að stuðla að fjölbreyttum búsetukostum, fjölgun fjölbreyttra atvinnutækifæra og auknu aðgengi íbúa að þjónustu. Í drögum að borgarstefnu er fjallað um fimm lykilviðfangsefni sem vinna þarf að í samstarfi ríkisins og sveitarfélaga á borgarsvæðunum til stuðla að því að framtíðarsýn hennar verði að veruleika. Þau eru loftslagsmál, móttaka innflytjenda, innviðir, samfélag og loks atvinnulíf, fjárfestingar og nýsköpun.
Borgarstefnu er ætlað að styðja við sjálfbæra framþróun borgarsvæðanna þar sem jafnvægi ríkir milli þriggja stoða sjálfbærrar þróunar, hinnar efnahagslegu, félagslegu og umhverfislegu, í samræmi við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.
Borgarstefna í samræmi við markmið byggðaáætlunar
Vinna við borgarstefnu byggir á áherslu í byggðaáætlunar 2022-2036 um að styrkleikar einstakra svæða verði greindir, unnið verði með þá og gætt að samspili þéttbýlis og dreifbýlis í þeim tilgangi að byggja upp fjölbreytt sjálfbær byggðarlög. Þessi áhersla felur m.a. í sér að móta stefnu þar sem hlutverk Reykjavíkur og höfuðborgarsvæðisins annars vegar og Akureyrarsvæðisins hins vegar, í byggðaþróun í landinu, verði skilgreind. Aðgerð C.4 Borgarstefna í aðgerðaáætlun byggist á þessari áherslu en skilgreint markmið hennar er að þessi tvö stærstu þéttbýlissvæði landsins verði efld og samkeppnishæfni þeirra og hlutverk í byggðaþróun landsins styrkt.