Byggjum grænni framtíð

Á næstu tveimur vikum verða haldnar fimm opnar vinnustofur á Teams á vegum verkefnisins Byggjum grænni framtíð. Til umræðu verða aðgerðir sem eiga að efla vistvæna mannvirkjagerð til ársins 2030.

Vinnustofurnar munu fjalla um skipulag og hönnun vistvænni mannvirkja, vistvæn byggingarefni, orkuskipti á vinnuvélum, nýtingartíma mannvirkja og hringrásarhagkerfi mannvirkjageirans.

Skráning á vinnustofurnar.

Sveitarfélögin eru mikilvægir hagaðilar húsnæðis- og mannvirkjageirans; þau eru því hvött til að taka virkan þátt og koma á framfæri sínum sjónarmiðum og þekkingu til verkefnisins. Formaður sambandsins, Aldís Hafsteinsdóttir, tók þátt í opnum stafrænum kynningarfundi á verkefninu þann 18. febrúar sl. Upptöku af þeim fundi má nálgast á vef verkefnisins.

Byggjum grænni framtíð er samstarfsverkefni stjórnvalda og atvinnulífsins, sem byggir á aðgerð C.3 í aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum. Á vegum verkefnisins starfa sex hópar sem skipaðir eru rúmlega 30 sérfræðingum víðsvegar úr virðiskeðju byggingargeirans.

Nánari upplýsingar um verkefnið má nálgast á byggjumgraenniframtid.is.