Benedikt Þór Valsson látinn

Samstarfsfélagi okkar og vinur, Benedikt Þór Valsson hagfræðingur, lést á heimili sinu fimmtudaginn 28. apríl sl.

Benedikt Þór Valsson hagfræðingur 1952-2022

Benedikt hafði starfað sem hagfræðingur á kjarasviði Sambands íslenskra sveitarfélaga frá árinu 2009. Hann kom að gerð kjarasamninga og sá um útreikninga á áhrifum launahækkana á fjárhag sveitarfélaga. Benedikt var ákaflega vel liðinn meðal samferðafólks síns, hafði hæga lund en var hnyttinn þegar það átti við og var sögumaður góður.

Benedikt, sem var á sjötugasta aldursári, var farinn að huga að starfslokum um mitt sumar, en ætlaði að koma með okkur í starfsmannaferð til Króatíu sama dag og hann lést.

Stjórn og starfsfólk Sambands íslenskra sveitarfélaga og Lánasjóðs sveitarfélaga senda eiginkonu Benedikts, börnum þeirra og öðrum afkomendum dýpstu samúðarkveðjur.

Útför Benedikts Þórs Valssonar fer fram frá Grafarvogskirkju, fimmtudaginn 12. maí kl. 13:00.