Barátta forystu Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur borið árangur

Aldís Hafsteinsdóttir, formaður stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, setti XXXVI. landsþing sambandsins í morgun. Í upphafi ræðu sinnar hrósaði hún sveitarstjórnarmönnum, stjórnendum og starfsmönnum sveitarfélaga fyrir fagleg og traustvekjandi störf á þessum sérkennilegum og fordæmalausum tímum.

Draga má mikinn lærdóm af þeirri reynslu og búast má við því að fjarfundir séu komnir til að vera ásamt mun meiri sveigjanleika varðandi atvinnu og mætingu á vinnustað.  

Sambandið hefur stigið öflugt skref í þessa átt og var fyrsta starfið auglýst án staðsetningar í nóvember 2019 og flest störf hafa síðan þá verið auglýst á þann hátt. Nýlega voru auglýst tvö störf í stafrænni umbreytingu og eitt starf forvarnarfulltrúa en störfin eru tímabundin og fjármögnuð samkvæmt samningi við ríki og sveitarfélög. Þessi stefna hefur orðið til þess að núna verður sambandið með starfsstöð í Skútustaðahreppi, á Akureyri og í Reykjanesbæ auk Borgartúnsins.  

Aldís vakti athygli á því að þetta væri fimmta landsþingið sem haldið væri á kjörtímabilinu og væri það nú enn og aftur í stafrænum heimi. Vonandi væri þetta þó í seinasta sinn er haldið er stafrænt landsþing þar sem maður er manns gaman og mikill söknuður af því að hittast ekki í eigin persónu. Aldís þakkaði einnig fyrir þann stuðning og traust er henni hefur verið sýnt sem formaður sambandsins og nefndi hversu stolt hún væri af því að fá að koma fram fyrir hönd sveitarfélaga.  

Í aðdraganda að stjórnar- og formannskjöri sambandsins 2018 fór fram mikil umræða um fyrirkomulag við val á forystufólki sambandsins. Brugðist var við þeim sjónarmiðum með því að skipa nefnd undir forystu Heiðu Bjargar Hilmisdóttur, varaformanns sambandsins, til að fara yfir samþykktir sambandsins og leggja fram tillögur að breytingum. Styður Aldís heilshugar þær tillögur er nefndin leggur fram og telur fyrirkomulagið til mikilla bóta.  

Aldís fór einnig  yfir viðbrögð sambandsins við kórónuveirukreppunni og að samþykkt hafi verið viðspyrnuáætlun í mars 2020. Í mars sl. var gert mat á árangri hennar og var ánægjulegt að sjá hvað tekist hafi að hrinda mörgum verkefnum áætlunarinnar í framkvæmd. Hvatti hún landsfundarmenn til að kynna sér stöðumatið og gögnin á vefsíðu sambandsins. Nú þegar ársreikningar sveitarfélaga fyrir árið 2020 eru að birtast sést að rekstur sveitarfélaga kemur betur út á síðasta ári en óttast var og hafa aðgerðir ríkisstjórnarinnar vissulega komið sveitarfélögum til góða. 

„Það er augljóst að þær aðgerðir sem forysta Sambands íslenskra sveitarfélaga barðist fyrir hafa borið árangur.“ 

Aldís tók fram að hún væri stolt af þeim árangri er náðist í viðræðum við ríkið og sveitarfélög hafa getað sótt fjármuni og nýtt til góðs innan sveitarfélaganna. Það hafi þó ollið vonbrigðum að finna ekki betri stuðning við þessar aðgerðir hjá sveitarfélögum. Það er mikilvægt þegar settar eru  kröfur um að ríkið styðji við sveitarfélög fjárhagslega að við séum trúverðug í okkar málflutningi og að ríkisvaldið geti treyst því að sveitarfélög séu ábyrg í sínum störfum, byggi viðræður og óskir á raunverulegri stöðu, á gögnum og staðreyndum.  

Aldís fór einnig stuttlega yfir fjölda mála sem nú er unnið að. Þar er t.d. verkefni um bætt aðgengi fyrir hreyfihamlaða. Kjaraviðræður eru að hefjast við fimm stéttarfélög innan Kennarasambands Íslands og fjögur stéttarfélög innan Bandalags háskólamanna ásamt því að stytting vinnutíma vaktavinnufólks hefur verið krefjandi verkefni. Ný menntastefna hefur verið samþykkt og í undirbúningi er skólaþing þar sem áhersla verður á að 25 ár eru frá yfirfærslu grunnskóla til sveitarfélaga. Einnig er unnið að miklum breytingum er varða samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna með áherslu á snemmtækan stuðning með aukinni samvinnu milli þjónustukerfa og breytingum á fyrirkomulagi barnaverndar hjá sveitarfélögunum.  

Fram kom að Aldís telur að meirihluti sveitarstjórnarfólks sé enn þeirrar skoðunar að nauðsynlegt sé að efla sveitarstjórnarstigið. Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis er með frumvarp sveitarstjórnaráðherra um að lögbinda lágmarksíbúafjölda sveitarfélaga og hefur nefndin sent tillögur um breytingar á frumvarpinu til sveitarfélaga. Ljóst er að þær tillögur eru ekki í samræmi við tvær samþykktir landsþings sambandsins í því máli. Engu að síður er reynt að hvetja fámenn sveitarfélög til að taka upp sameiningarviðræður og hver veit nema að fleiri en þau sem nú eru að ræða saman hefji viðræður.  

„Sá mikli fjárstuðningur sem býðst vegna sameiningar sveitarfélaga liggur fyrir og virkar hann vafalaust sem hvati í þróun þessa máls. Við höfum ítrekað gert kröfu um að það fé komi að öllu leyti beint úr ríkissjóði og gerum við það hér enn og aftur.“ 

Aldís vakti einnig athygli á því að 21 sveitarstjóri hafi hætt störfum á tímabilinu og að endurnýjun sveitarstjórnarmanna er að hennar mati of hröð sem veldur miklu álagi á þá sem þessi störf taka að sér. Er hún hugsi eftir að hafa lesið viðtal við borgarfulltrúa sem nú hefur valið að hverfa af vettvangi sveitarstjórnarmála ekki síst vegna þess umhverfis og orðræðunnar sem sveitarstjórnarmenn búa við. Ítrekaði hún að sveitarstjórnarfólk er venjulegt fólk sem hefur tekið að sér, eftir lýðræðislegar kosningar að sinna störfum fyrir samborgara okkar.  

„Getum við ekki öll tamið okkur betri og mannlegri nálgun og þannig reynt að sýna gott fordæmi fyrir alla þegar kemur að samskiptum við náungann. Það væri alla vega jákvætt ef fleiri myndu endast lengur í starfi og að endurnýju yrði með eðlilegum hætti en ekki í þeim risastökkum sem reyndin hefur verið undanfarnar kosningar.“