Í Eistlandi hefur íbúaþróun verið svipuð og víðast hvar annars staðar, þannig að landsbyggðarsveitarfélög hafa misst mikið af íbúum til borganna með tilheyrandi þjónustuáskorunum fyrir þau.
Umfangsmiklar sameiningar sveitarfélaga áttu sér stað í Eistlandi 2017 til að skapa forsendur fyrir skilvirkari stjórnsýslu og betri þjónustu við íbúa vegna þessarar þróunar. Sveitarfélögum fækkaði úr 213 í 79 í sameiningarátakinu. Þau áttu að lágmarki að hafa 5000 íbúa en nokkur lítil sveitarfélög fengu undanþágu frá lágmarkinu vegna menningarlegra aðstæðna, t.d. eyjasveitarfélög og sveitarfélög þar sem meirihluti íbúa er með annað tungumál en eistnesku að móðurmáli. Fyrir umbæturnar voru eistnesk sveitarfélög með að meðaltali 20 starfsmenn í þjónustu sinni en eftir umbæturnar 60. Samtals hafa orðið til 60 ný störf innan félags- og velferðarþjónustunnar eftir sameiningarnar. Fyrir sameiningar var að meðaltali hálft stöðugildi í barnaverndarmálum í sveitarfélögum en eftir breytingarnar eru þau 2,4.
Í viðtali „Kommuntorget“ við starfsmenn eistneska sveitarfélagasambandsins kemur fram að sameiningarnar hafi leitt til betra framboðs á félagsþjónustu vítt og breitt um landið. Sameiningarnar hafi ekki leitt til sparnaðar þar sem þjónustustig við íbúa hefur hækkað. Ríkið hefur aukið fjárveitingar til sveitarfélaganna en eistnesk sveitarfélög eru ekki með sjálfstæða tekjustofna heldur reka sig með fjárveitingum frá ríkinu. Þrátt fyrir að aðeins séu þrjú ár síðan sameiningarátakið átti sér stað er þegar farið að ræða um að nýtt sameiningarátak með hækkun 5000 íbúa lágmarksins.