Aukið samstarf og markvissari viðbrögð vegna stöðu mála í Evrópu

Á fundi hagsmunasamtaka sveitarfélaga í Evrópu sem haldinn var í Tiblisi í Georgíu á dögunum var meðal umræðuefna að krísur eru um þessar mundir ekki undantekning heldur viðvarandi ástand.

Sendinefnd Íslands við „landamæri“ Suður-Ossetíu, í baksýn má sjá rússneska herstöð. Frá vinstri: Einar Þorsteinsson, Reykjavíkurborg, Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður stjórnar sambandsins, Reykjavíkurborg, Margrét Ólöf A. Sanders, Reykjanesbæ, og Óttar Freyr Gíslason forstöðumaður Evrópuskrifstofu sambandsins í Brussel.

Pólitísk stefnumótunarnefnd hagsmunasamtaka sveitarfélaga í Evrópu - CEMR fundaði í Tbilisi dagana 6.-7. júní. Formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, Heiða Björg Hilmisdóttir ásamt þeim Margréti Sanders og Einari Þorsteinssyni voru fulltrúar Íslands á fundinum.

Það var engin tilviljun að stefnumótunarnefnd CEMR fundaði að þessu sinni í Tbilis, né heldur að meðal umræðuefna var s.k. Poli-Crisis. En það fjallar um þá staðreynd að samfélög okkar hafa undanfarið þurft að takast á við ekki eina krísu heldur margfaldar krísur. Á sama tíma og Covid hætti að vera faraldur þá skall á stríð í Evrópu og því hefur fylgt orkukrísa, sögulega há verðbólga og í kjölfar hennar vaxtahækkanir.

Krísustjórnun hið nýja norm?

Í þessari umræðu lagði sambandið til að CEMR athugi með hvaða hætti megi stuðla að auknu samstarfi á milli evrópskra borga, bæja og sveitarfélaga í tengslum við þær krísur sem íbúar álfunnar eiga við að etja þessi misserin. Að ekki sé talað um ef að krísustjórnun sé hreinlega að verða hið nýja norm. Hér er einkum horft til þess hvernig nýta megi vinabæjasamstarf með markvissari hætti og nefndi sambandið sem dæmi heimsókn borgarstjóra og forseta borgarstjórnar Reykjavíkurborgar til Lviv á dögunum. Þar var ekki einungis undirritað samkomulag um vinabæjarsamband, heldur undirritaði forstjóri Össur hf. samkomulag við endurhæfingaspítalann Unbroken Medical Center í Lviv.

Árásir Rússlands á fyrrum ríki Sovétríkjanna

Innrás Rússlands í Úkraínu voru slæmar fréttir fyrir alla Evrópu, en fyrir Georgíu var hún áfall. Georgía var hluti af Sovérríkjunum þar til 1991 og árið 2008 brutust út skammvinn en blóðug átök á milli Georgíu og Rússlands. Afleiðing þess var að tvö héruð í Georgíu, Abkhazia og Suður-Ossetía, lýstu yfir sjálfstæði, sem einungis Rússland og örfá önnur ríki hafa viðurkennt. Hluti af dagskrá fundarins var því vettvangsferð að „landamærum“ Suður-Ossetíu. Þá var einnig heimsóttur skóli og íbúabyggð sem í dag hýsir íbúa sem hrökkluðust frá Suður-Ossetíu árið 2008.

Hringrásarhagkerfið

Á fundinum voru einnig til umræðu helstu mál á döfinni í starfi CEMR. Frá sjónarhóli íslenskra sveitarfélaga bar þar hæst umræður um hringrásarhagkerfið. Á fundinum minnti sambandið á að vegna EES samningsins sé megnið af löggjöf ESB sem varðar hringrásarhagkerfið innleidd á Íslandi, í Noregi og Liechtenstein. Þá séu markmið hringrásarhagkerfisins leiðarljós vinnu íslenskra sveitarfélaga í tengslum við úrgangsmál og að íslensk sveitarfélög styðji markmið ESB í þessum efnum.

Hins vegar var áréttað að öll löggjöf í tengslum við hringrásarhagkerfið þurfi að taka mið af aðstæðum og sérstöðu hvers lands. Í þessu tilliti var sérstaklega bent á endurskoðun fráveitutilskipunar ESB. Tilskipuninn verði að taka tillit til mismunandi aðstæðna í álfunni, m.a. fólksfjölda, dreifðar byggðir, gæði náttúrulegra viðtaka, o.s.frv.. Þá þurfi að vera samræmi á milli þeirra aðgerða sem gripið sé til og umhverfislegs ávinnings sem af því hljótist. Þá var bent á mikilvægi þess að aukin framleiðendaábyrgð sé lykilatriði þegar kemur að minnkun úrgangs og mengunar.

Næsti fundur stefnumótunarnefndar CEMR verður í Prag í desember 2023.