Miðvikudaginn 18. október var kynnt skýrsla Vísindanefndar um áhrif loftslagsbreytinga. Skýrslan staðfestir, svo ekki sé um villst, að áhrifa loftslagsbreytinga er þegar farið að gæta á Íslandi.
Áhrifin birtast fyrst og fremst í náttúrufari og lífsskilyrðum fólks og fela í sér áskoranir fyrir efnahag, samfélag og náttúru. Í megin niðurstöðum skýrslunnar segir meðal annars:
Til að tryggja að þær áskoranir verði ekki meiri en við er ráðið þarf umbyltingu í lífsháttum og umgengni við náttúruna. Þar gegna stjórnvöld, atvinnulíf og stefnumótendur lykilhlutverki. Draga þarf úr losun eins hratt og unnt er og aðlaga samfélagið þannig að það ráði við álagið. Loftslagsvá er viðfangsefni samfélagsins alls og forðast þarf andvaraleysi gagnvart áhættunni.
Skýrslan er sú fjórða sinnar gerðar og tekur hún bæði mið af reglulegum matsskýrslum Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar og var þar að auki byggð á víðtæku samráði við íslenskt vísindasamfélag. Víða í skýrslunni er vísað til sveitarfélaga enda eru áhrif loftslagsbreytinga víðfeðm og munu þau hafa víðtæk áhrif á skipulag og starfsemi sveitarfélaga á komandi árum og áratugum.