Á stafrænu vefsíðu sveitarfélaga er að finna áhættumat kennsluhugbúnaðar. Áhættumatið var unnið í samstarfi við Hafnarfjörð, Garðabæ, Kópavog og Reykjavík sumrin 2020 og 2021.
Áhættumatið var unnið af háskólanemum undir leiðsögn verkefnastjóra. Nemendurnir tóku að sér að greina áhættur við þau kennslukerfi sem vilji er fyrir að séu notuð í kennslu hjá þeim sveitarfélögum sem stóðu að verkefninu. Áhættumatið tekur meðal annars á meðferð persónuupplýsinga hjá þjónustuaðila kennslukerfa, mögulegar áhættur gagnvart miðlun upplýsinga og meðhöndlun gagna.
Kennsluhugbúnaðurinn sem var metinn hentar börnum í leikskóla, grunnskóla og frístund. Markhópurinn er þá fyrst og fremst starfsfólk skóla, kennarar, kennsluráðgjafar og aðrir. Helsti ávinningurinn af áhættumatinu er dreifing vinnu og kostnaðar milli þeirra sveitarfélaga sem eru í samstarfinu, og úr vinnunni hefur orðið til gagnagrunnur sem öll sveitarfélög geta nýtt sér. Nauðsynin sem liggur að baki áhættumats kennsluhugbúnaðar er að vernda nemendur sem viðkvæman hóp, koma í veg fyrir að kennsluforrit á vegum skóla brjóti á rétti barna, að finna heppileg kennsluforrit til kennslu út frá áhættumati og uppfylla lagaleg skilyrði til persónuverndar (GDPR löggjöfin).
Hér er að finna nánari upplýsingar og áhættumat þeirra kennslukerfa sem hafa nú þegar verið áhættumetin.