Af dýraleifamálum 

Sambandið hefur tekið virkan þátt í umræðu um ábyrgð og hlutverk sveitarfélaga er varða dýraleifar síðustu misseri. Álit sambandsins er að söfnun, flutningur og önnur meðhöndlun aukaafurða dýraleifa ekki lögbundið hlutverk sveitarfélaga og má finna í minnisblaði dags. 4. júlí 2023.

Sambandið birti frétt um helstu niðurstöður minnisblaðsins á vefsíðu sinni þann 14. desember sl. Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi fjölluðu um málið á opnum fundi 21. febrúar sl. og er hægt að nálgast upptöku af þeim fundi.  

Í kjölfarið af birtingu fréttar sambandsins barst sambandinu bréf frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu (URN) þar sem ráðuneytið bregst við innihaldi fréttarinnar. Í bréfinu kemur fram að afstaða ráðuneytisins fer ekki saman við niðurstöðu sambandsins um hlutverk og ábyrgð sveitarfélaga er varða þessar afurðir. Taka ber fram að sambandið sendi URN og matvælaráðuneytinu umtalað minnisblað við útgáfu þess og óskaði eftir samtali við að finna lausnir á þessu álitamáli. Engin viðbrögð fengust þar til eftir birtingu fréttar um málið. 

Sambandið ítrekar að í flestum tilvikum eru aukaafurðir dýra ekki úrgangur og ekki á ábyrgð sveitarfélaga að sjá um söfnun, flutning eða að byggja upp innviði fyrir slíkar afurðir. Hagrænir hvatar þurfa að vera til staðar svo aukaafurðir dýra skili sér í viðeigandi farveg þar sem hráefnið er nýtt í afurðir frekar en í úrgangsmeðhöndlun. Bréf URN var tekið fyrir á fundi stjórnar sambandsins 15. mars sl. og bókaði stjórnin:   

Stjórn tekur undir bókun verkefnisstjórnar undir lið 2 í fundargerð, meðhöndlun dýraleifa. Mikilvægt er að leita leiða til að skapa hvata til að dýraleifar skil sér fremur í farveg aukaafurða dýra en í úrgangsmeðhöndlun. Greina þarf í því samhengi ábyrgð handhafa aukaafurða dýra á að koma því sem til fellur í slíka farvegi. Stjórn felur framkvæmdarstjóra að óska eftir fundi með umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu og matvælaráðuneytinu um málið.  

Bókun verkefnisstjórnar fyrir hagsmunagæslu í úrgangsmálum frá 19. feb. sl. er eftirfarandi:  

Að mati verkefnisstjórnar er frumkvæði umhverfis- loftslags- og orkumálaráðuneytsins (URN) að því að skýra frá mati ráðuneytisins á ábyrgð sveitarfélaga á meðhöndlun dýraleifa jákvætt skref. Ljóst er af dómi EFTA frá júlí 2022, sem ríkið fékk á sig, að það hefur verið óheimilt að urða dýraleifar og ríkinu bar að láta það ekki viðgangast. Verkefnisstjórnin undirstrikar mikilvægi þess að þeirri ábyrgð sé ekki velt yfir á sveitarfélögin. Í bréfi ráðuneytisins er látið að því liggja að hægt sé að ákveða fyrirfram að dýraleifar skuli fara í þá meðhöndlun sem tilgreind er í úrgangsregluverkinu án frekari rökstuðnings, þar með beri sveitarfélög ábyrgðina í stað þess að þau séu meðhöndluð á grundvelli regluverks um aukaafurða dýra þar sem sláturleyfishafar bera ábyrgðina. [...] Að mati verkefnisstjórnar gengur það gegn áherslum hringrásarhagkerfis, að leyfa dýraleifum að verða að úrgangi, sem síðan er meðhöndlaður er með brennslu, sendur til urðunar eða til notkunar í lífgas- eða myltingarstöð. Verkefnisstjórnin óskar eftir að sambandið eigi fund með URN og matvælaráðuneytinu til að leita leiða til að skapa hvata til að aukaafurðir dýra séu í meira mæli meðhöndlaðar á forsendum hringrásarhakerfisins og greind verði í því samhengi ábyrgð handhafa aukaafurða dýra á að koma því sem til fellur í slíka farvegi. 

Tengt efni