Aðlögðun heimsmarkmiða að sveitarstjórnarstiginu

Mælst er eindregið til þess, að fjallað sé sérstaklega um staðbundna framkvæmd heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna (SDG) í stöðuskýrslum aðildaríkja, í nýútkominni skýrslu CEMR og PLATFORMA; Heimsmarkmiðin og forystuhlutverk sveitarstjórna og svæða í Evrópu. Skýrslan byggir á könnun sem gerð var á afstöðu staðbundinna stjórnvalda til heimsmarkmiðanna og aðlögun þeirra að sveitarstjórnarstiginu.

Cemr-platforma-skyrsla-vegna-sdgMælst er eindregið til þess, að stöðuskýrslur aðildarríkja fjalli sérstaklega um staðbundna framkvæmd heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna (SDG), í skýrslu sem Evrópusamtök sveitarfélaga, CEMR, hefur gefið út; Heimsmarkmiðin og forystuhlutverk sveitarfélaga og svæða í Evrópu.

Skýrslan byggir á könnun sem gerð var á afstöðu staðbundinna stjórnvalda til heimsmarkmiðanna og aðlögun þeirra að sveitarstjórnarstiginu.

Markmið könnunarinnar var að afmarka þær hindranir eða takmarkanir sem standa heimsmarkmiðunum helst fyrir þrifum á sveitar- og svæðisstjórnarstigi. Um brautryðjendaverk er að ræða, þar sem þetta er í fyrsta sinn sem staða heimsmarkmiðanna á sveitarstjórnarstigi er rannsökuð innan Evrópu með aðild staðbundinna stjórnvalda. 

Takmarkað fjármagn, skortur á aðgengilegum og staðbundnum gögnum og takmarkað námsframboð fyrir starfsfólk sveitarfélaga og svæða (e. lack of financial resources, lack of data available at the local level and lack of training) voru samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar þau atriði sem oftast voru tilgreind sem hindrun í vegi heimsmarkmiðanna hjá sveitarfélögum og svæðum.

Með hliðsjón af þeirri lykilstöðu sem sveitarfélög gegna gagnvart framkvæmd heimsmarkmiðanna, var talið mikilvægt að könnunin væri gerð, ekki aðeins til að varpa ljósi að mögulega flöskuhálsa, heldur einnig til að safna upplýsingum um góða starfshætti og aðlögun þeirra að sveitarstjórnarstiginu.

Á meðal þess sem mælt er með í skýrslunni má nefna, að sveitarfélög og svæði þrói aðferðir í upplýsinga- og kynningarmálum sem aukið geta vitund íbúa um heimsmarkmiðin og það sem þau standa fyrir.

Einnig er mælt með því að sveitarfélög komi sér upp verkefnisstjóra vegna heimsmarkmiðanna, einum sér eða í sameiningu. Þá er víða leitað fanga varðandi ábendingar um góða starfshætti, s.s. til Þýskalands, en þar í landi hafa samtök svæðisstjórna þróað árangursmælikvarða fyrir sveitarfélög vegna heimsmarkmiðanna  (e. SDG Indicators for Municipalities).

Þá er ekki síður talið mikilvægt að aðildarríki að heimsmarkmiðum S.þ. fjalli í stöðuskýrslum sínum um staðbundna framkvæmd þeirra og hvernig að henni er staðið. Mikilvægt sé að valdefla sveitarfélög og svæði í viðleitni þeirra til að fylgja markmiðum eftir og stuðla að góðri yfirsýn yfir stöðu mála hverju sinni þvert á stjórnsýslustig.

Hér hefur aðeins verið tæpt á helstu atriðum skýrslunnar, sem nefnist á ensku Sustainable Development Goals – How Europe‘s towns and regions are taking the lead.  Eru áhugasamir hvattir til að kynna sér efni hennar frekar.

Þess má svo geta, að Carlos Martinez, borgarstjóri spænsku borgarinnar Soria, var fulltrúi CEMR á leiðtogafundi Sameinuðu þjóðanna í júlí sl. vegna heimsmarkmiðanna og kynnti hann niðurstöður könnunarinnar á þeim vettvangi. Hvatti hann í máli sínu eindregið til þess, að aðildarríki fjalli í stöðuskýrslum sínum sérstaklega um aðlögun og framkvæmd markmiðanna á sveitarstjórnarstigi, eins og Spánverjar hafi raunar gert í stöðuskýrslu sinni til Sameinuðu þjóðanna.

CEMR er skammstöfun á Evrópusamtökum sveitarfélaga, Council of European Municipalities and Regions.