Aðgerðir Evrópusambandsins gegn hatursorðræðu á netinu hafa í samstarfi við alþjóðlegu vefrisana skilað árangri. Frekari árangur er talinn háður því að fyrirtækin bæti upplýsingagjöf til notenda.
Aðgerðir Evrópusambandsins gegn hatursorðræðu á netinu hafa í samstarfi við alþjóðlegu vefrisana skilað árangri. Frekari árangur er talinn háður því að fyrirtækin bæti upplýsingagjöf til notenda.
Samstarf Evrópusambandsins við fyrirtæki á borð við Facebook, Microsoft, Twitter og Youtube til þess að stemma stigu við hatursorðræðu á netinu hófst árið 2016. Samstarfið felur í sér að fyrirtækin setja upp ákveðna vinnuferla sem ætlað er að finna og fjarlægja efni á netinu sem inniheldur hatursorðræðu. Frá því að átakið hófst hafa fleiri fyrirtæki bæst í hópinn, þar á meðal Instagram, Google+ og Snapchat.
Árangurinn af þessu samstarfi var kynntur á dögunum. Þar kemur fram að í dag eru 89% efnis á netinu, sem hugsanlega inniheldur hatursorðræðu, meðhöndlað innan 24 tíma frá því að það hefur verið greint, en af því efni er að meðaltali 70% fjarlægt sem hatursorðræða. Til samanburðar má nefna að áður en samstarfið hófst var einungis 40% af skaðlegu netefni greint innan 24 tíma og af því efni tókst ekki að fá nema 20% fjarlægt.
Að mörgu leyti má leggja sveitarfélög að jöfnu við fjölþjóðleg samfélög samfara móttöku flóttamanna, tímabundinni dvöl farandverkafólks og auknum búferlaflutningum fólks á milli landa. Það er því ljóst að aðgerðir gegn hatursorðræðu er mikilvægur þáttur í því að skapa samfélag þar sem mismunandi menning og skoðanir fá þrifist í sátt og samlyndi íbúa.
Aðgerðir Evrópusambandsins byggja á hegðunarreglum (Code of Conduct) sem samþykktar voru á árinu 2016. Ljóst þykir að frekari árangur er háður því, að vefrisarnir bæti endurgjöf sína til notenda. Er m.a. talið að fyrirtækin geti gert betur hvað upplýsingamiðlun til notenda snertir og skýringar á því hvers vegna efni hafi verið fjarlægt.