Alþingi samþykkti á síðasta ári þingsályktun, nr. 37/150, um forvarnir meðal barna og ungmenna gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni, ásamt áætlun um aðgerðir fyrir árin 2021–2025
Í þingsályktuninni er lögð áhersla á að forvarnir verði samþættar kennslu og skólastarfi á öllum skólastigum, sem og í starfsemi frístundaheimila og félagsmiðstöðva. Í áætluninni er kveðið á um 26 aðgerðir undir sex efnisköflum. Ábyrgðaraðilar eru 18 og þar á meðal skólaskrifstofur sveitarfélaga og skólastjórar leik- og grunnskóla. Gert er ráð fyrir þverfaglegu samstarfi um aðgerðir. Stýrihópur sem forsætisráðuneytið leiðir skal fylgja áætluninni eftir með stuðningi forvarnafulltrúa Sambands íslenska sveitarfélaga og sérstöku mælaborði sem verður uppfært tvisvar á ári. Hér að neðan er yfirlit yfir aðgerðir sem tengjast starfsemi sveitarfélaga.
I. Forvarnafulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Sambandið hefur á grundvelli aðgerðaráætlunarinnar ráðið Ölfu Dröfn Jóhannsdóttur í starf forvarnafulltrúa. Samkvæmt aðgerð A1 á hún að styðja við skólaskrifstofur sveitarfélaga við miðlun fræðslu og forvarna á því sviði sem þingsályktunin tekur til í leikskólum, grunnskólum, frístundaheimilum og félagsmiðstöðvum. Hún á einnig að miðla þekkingu og fræðslu til grunnskóla og leikskóla sem ekki heyra undir skólaskrifstofur sveitarfélaga, þ. á m. til sjálfstæðra skóla.
Alfa mun hefja störf í byrjun ágúst nk. og hafa tölvupóstfangið alfa@samband.is Fram að þeim tíma er hægt að beina fyrirspurnum varðandi áætlunina til Önnu G. Björnsdóttur, sviðsstjóra þróunar- og alþjóðasviðs, anna@samband.is.
II. Hlutverk skólaskrifstofa sveitarfélaga, sbr. aðgerð A.2
- Miðla þekkingu og veita leikskólum og grunnskólum, ásamt frístundaheimilum og félagsmiðstöðvum, stuðning til að tryggja að forvarnir gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni verði samþættar skólastarfi og starfsemi, einkum í kennslu, og að starfsfólk hljóti viðeigandi fræðslu.
- Tryggja að forvarnir gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni verði markviss þáttur í skólastefnu sveitarfélaga og í forvarnastefnu hvers skóla fyrir sig.
- Halda utan um tölfræðiupplýsingar um fræðslu í sínu umdæmi og miðla upplýsingum um árangur til forvarnafulltrúa.
- Mælikvarði: Allar skólaskrifstofur hafi miðlað þekkingu til leik- og grunnskóla á sínu svæði í lok árs 2024.
- Ábyrgðaraðili: Skólaskrifstofur.
- Dæmi um samstarfsaðila: Forvarnafulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga, leik- og grunnskólar, Barnaverndarstofa/Barnahús og félagsþjónusta sveitarfélaga.
III. Forvarnateymi í hverjum grunnskóla í lok árs 2021, sbr. aðgerð C.1.
- Í hverjum grunnskóla starfi teymi sem hafi það hlutverk að tryggja kennslu í öllum árgöngum um kynbundið og kynferðislegt ofbeldi og áreitni sem hæfir aldri og þroska nemenda.
- Teymið verði kennurum og öðru starfsfólki til stuðnings og ráðgjafar varðandi fræðslu og umræðu um kynferðislegt og kynbundið ofbeldi og áreitni og sjái einnig um að tryggja viðunandi þekkingu og þjálfun starfsfólks.
- Teymið leitist við að tryggja samhæfð viðbrögð þegar börn reyna að greina frá ofbeldi og áreitni. Sérstaklega verði horft eftir merkjum um slíkt í tengslum við umfjöllun gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni.
- Viðmið um skipan teymis: Stjórnandi, kennari með þekkingu á málaflokknum, skólahjúkrunarfræðingur, skólasálfræðingur, þroskaþjálfi/sérkennari, námsráðgjafi, tengiliður við frístundaheimili og/eða við félagsmiðstöð og félagsþjónustu. Teymið verði jafnframt tengiliður við skólaskrifstofur sem sjái um að miðla þekkingu og fræðslu. Skólaskrifstofur fylgi því eftir að innan hvers skóla verði starfrækt slíkt teymi.
- Ábyrgðaraðili: Skólastjórar grunnskóla og skólaskrifstofur sveitarfélaga.
IV. Fræðsla til starfsfólks leikskóla, grunnskóla, frístundaheimila og félagsmiðstöðva, sbr. aðgerðir B.1. og C.2.
- Tryggt verði að starfsfólk þessara stofnana hljóti lágmarksfræðslu með netnámskeiði, sbr. aðgerð A4, sem Barnaverndarstofa/Barnahús skal sjá til að verði tilbúið 2022. Námskeið fyrir: 1) leikskóla, 2) yngri bekki grunnskóla ásamt frístundaheimili, 3) eldri bekki grunnskóla ásamt félagsmiðstöðvum. Mælikvarði: 90% starfsfólks hafi lokið netnámskeiði í lok árs 2025.
- Skólaskrifstofur bjóði upp á frekari fræðslu og umræðu innan umdæmis síns.
- Stjórnendur leikskóla, grunnskóla, frístundaheimila og félagsmiðstöðvar nýti annað faglegt og gagnreynt fræðsluefni til að tryggja viðunandi þekkingu og þjálfun starfsfólks.
- Ábyrgðaraðilar: Forvarnateymi grunnskóla og leikskólastjórar.
V. Annar stuðningur við fræðslu starfsfólks og barna og ungmenna.
Aðgengi að efni á einum stað, sbr. aðgerð A5.
- Náms- og fræðsluefni sem styður við forvarnir gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni í leik-, grunn- og framhaldsskólum verði aðgengilegt á einum stað og merkt sérstaklega í leitarbrunni á vefsvæði Menntamálastofnunar árið 2021.
- Menntamálastofnun setji fram faglegar kröfur sem slíkt efni þarf að uppfylla til að hægt sé að hýsa það á vefsvæði stofnunarinnar. Lögð verði áhersla á að efnið byggist á gagnreyndum aðferðum.
- Ábyrgðaraðili: Menntamálastofnun.
Námsefni fyrir leikskóla, sbr. aðgerð B.2.
- Tryggt verði að leikskólar hafi aðgang að vönduðu námsefni sem stuðli að forvörnum gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni og henti leikskólabörnum á öllum aldri, sbr. grunnþætti menntunar samkvæmt aðalnámskrá leikskóla.
- Farið verði heildstætt yfir kennslu- og fræðsluefni sem til er og það uppfært og endurútgefið eftir því sem við á.
- Þá verði þróað nýtt, gagnvirkt efni sem hæfi aldri og þroska nemenda, sbr. þingsályktun nr. 35/149, um áætlun fyrir árin 2019–2022 um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess.
- Efnið verði byggt á gagnreyndri þekkingu og þekkingu á leikskólastarfi og sérstöðu leikskólastigsins. Sérstaklega verði tekið tillit til ólíkra þarfa og aðstæðna kynjanna og mismunandi einstaklinga og hópa, svo sem fatlaðra barna, hinsegin barna og barna sem hafa annað móðurmál en íslensku. Þá verði tryggt að námsefnið taki mið af notkun barna á stafrænni tækni.
- Efninu fylgi greinargóðar leiðbeiningar til starfsfólks leikskóla um notkun þess.
- Námsefnið verði aðgengilegt á vef Menntamálastofnunar fyrir árslok 2022 og öllum opið og frjálst til notkunar.
- Ábyrgðaraðili: Barnaverndarstofa/Barnahús
Handbók um velferð og öryggi barna í leikskólum verði uppfærð, sbr. aðgerð B.3.
- Handbókin verði uppfærð í sl. 2025 með tilliti til forvarna gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni.
- Við uppfærsluna verði litið til varúðarráðstafana sem draga úr hættu á að kynferðislegt og kynbundið ofbeldi og áreitni eigi sér stað innan veggja leikskóla eða í tengslum við leikskólastarf, þar á meðal í ferðum á vegum leikskóla.
- Sérstaklega verði hugað að þörfum og aðstæðum jaðarsettra hópa, svo sem fatlaðra barna og barna sem hafa annað móðurmál en íslensku.
- Ábyrgðaraðili: Mennta- og menningarmálaráðuneyti.
Námsefni fyrir grunnskóla, sbr. aðgerð C.3.
- Tryggt verði að grunnskólar hafi aðgang að vönduðu námsefni sem stuðli að forvörnum gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni og henti börnum á öllum aldri, sbr. grunnþætti menntunar samkvæmt aðalnámskrá grunnskóla.
- Farið verði heildstætt yfir það náms- og fræðsluefni sem til er og það uppfært og endurútgefið eftir því sem við á.
- Þá verði nýtt gagnvirkt efni þróað sem byggist á gagnreyndri þekkingu og hæfi aldri og þroska nemenda og taki mið af notkun barna á stafrænni tækni.
- Við námsefnisgerð verði tekið tillit til ólíkra þarfa og aðstæðna kynjanna og mismunandi einstaklinga og hópa, svo sem fatlaðra barna, hinsegin barna og barna sem hafa annað móðurmál en íslensku. Einkum verði lögð áhersla á námsefni sem fjallar með beinum og opinskáum hætti um eðli og afleiðingar kynferðislegs og kynbundins ofbeldis og áreitni.
- Jafnframt verði útbúið vandað námsefni um kynheilbrigði og kynhegðun, sbr. þingsályktun nr. 35/149, um áætlun fyrir árin 2019–2022 um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess.
- Efninu fylgi greinargóðar leiðbeiningar til kennara og annars starfsfólks um notkun þess.
- Námsefnið verði aðgengilegt á vef Menntamálastofnunar fyrir árslok 2022 og öllum opið og frjálst til notkunar.
- Ábyrgðaraðili: Menntamálastofnun.
Fræðsla til unglinga í gegnum félagsmiðstöðvar og starfsfólk þess, sbr. aðgerð C.5.
- Fræðslu um kynferðislegt og kynbundið ofbeldi og áreitni verði beint til unglinga í gegnum félagsmiðstöðvar.
- Stígamótum verði falið að halda áfram fræðslu til starfsfólks félagsmiðstöðva sem fram hefur farið í tengslum við átakið Sjúk ást. Þannig verði fest í sessi það fyrirkomulag að unglingar sem sækja árlegt ball Samfés þurfi fyrst að fá fræðslu í félagsmiðstöð sinni.
- Skoðað verði hvernig megi styðja með frekari hætti forvarnastarf í félagsmiðstöðvum, einkum það sem beinist að því að þjálfa starfsfólk félagsmiðstöðva í að fjalla um kynferðislegt og kynbundið ofbeldi og áreitni, svo sem með Ofbeldisforvarnaskólanum.
- Mælikvarði: Allir unglingar sem sækja árlegt ball Samfés hljóti fræðslu Sjúkrar ástar í félagsmiðstöð sinni.
- Ábyrgðaraðili: Stígamót
Fræðsla til starfsfólks í íþrótta- og æskulýðsstarfi, sbr. aðferð E.1.
- Starfsfólk og sjálfboðaliðar íþrótta- og æskulýðsstarfs og annars tómstundastarfs hljóti fræðslu um kynferðislegt og kynbundið ofbeldi og áreitni og forvarnir sem hæfi iðkendum og öðrum þátttakendum.
- Stjórnendur íþrótta- og æskulýðsfélaga og annarra tómstundafélaga og listkennslu beri ábyrgð á fræðslunni.
- Tryggt verði að allt starfsfólk og sjálfboðaliðar hljóti lágmarksfræðslu á netnámskeiði um barnavernd sem hannað var fyrir íþrótta- og æskulýðsstarf.
- Jafnframt verði hvatt til þess að íþrótta-, æskulýðs- og tómstundafélög, auk listaskóla, nýti sér annað faglegt og gagnreynt fræðsluefni til að tryggja þekkingu og þjálfun starfsfólks.
- Mælikvarði: 90% starfsfólks og sjálfboðaliða hafi lokið netnámskeiði um barnavernd fyrir árslok 2025.
- Ábyrgðaraðili: Stjórnendur íþrótta- og æskulýðsfélaga og annarra tómstundafélaga og listkennslu
Fræðsla til starfsfólks sem starfar með fötluðum börnum, sbr. aðgerð E.2.
- Fræðslu um kynferðislegt og kynbundið ofbeldi og áreitni verði beint sérstaklega að fagaðilum, sjálfboðaliðum og öðrum sem starfa með fötluðum börnum og ungmennum, þar á meðal innan heilbrigðiskerfisins, íþróttafélaga, í ferðaþjónustu fatlaðs fólks og á heimilum og í skammtímadvöl fyrir fötluð börn og ungmenni.
- Sérstaklega verði fræðslu beint til sjúkraþjálfara og iðjuþjálfa, íþróttaþjálfara og sjálfboðaliða og til starfsfólks á skammtímadvalarheimilum fyrir fötluð börn.
- Stjórnendur félaga og stofnana, með stuðningi frá forvarnafulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga, beri ábyrgð á fræðslunni.
- Tryggt verði að allt starfsfólk hljóti lágmarksfræðslu á netnámskeiði, sbr. aðgerð A.4, með áherslu á viðeigandi aldurshóp og viðbótarfræðslu sem fjalli með ítarlegri hætti um eðli og afleiðingar ofbeldis og áreitni gegn fötluðum börnum.
- Mælikvarði: 90% fagaðila, sjálfboðaliða og annarra sem starfa með fötluðum börnum og ungmennum innan skipulagðra félaga eða stofnana hafi lokið netnámskeiði fyrir lok árs 2025.
- Ábyrgðaraðili: Stjórnendur félaga og stofnana.
Sambandið vonast eftir góðu og árangursríku samstarfi við sveitarfélög og stofnanir þess um þetta mikilvæga málefni. Samhliða þessu bréfi hafa forsætisráðherra og formaður sambandsins undirritað hvatningarbréf til allra sveitarstjórna landsins.