Að hvaða leyti hafa aðgerðir ESB í loftslagsmálum áhrif á íslensk sveitarfélög?

Loftslagsskýrsla Sameinuðu þjóðanna kom út á dögunum og þar er dregin upp dökk mynd af stöðu mála. Við það tækifæri sagði Halldór Þorgeirsson, formaður loftslagsráðs íslenskra stjórnvalda, að „næsti áratugur verði úrslitaáratugur“.

Fyrir ESB hófst úrslitaáratugurinn með kynningu á loftslagsaðgerðapakka sambandsins. Pakkinn gengur undir nafninu Fit-for-55 sem er vísun í markmið ESB um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 55% fyrir árið 2030.

Hvað varðar okkur um aðgerðir ESB í loftslagsmálum?

Ísland deilir makmiðum ESB um 55% minni losun fyrir árið 2030 og þá stefna íslensk stjórnvöld á s.k. loftslagshlutleysi árið 2040. Eins er ljóst að mikið af þeim aðgerðum sem ESB mun grípa til á næstu árum í tengslum við Fit-for-55 pakkann munu hafa áhrif hér á landi. Það tengist samningnum um evrópska efnahagssvæðið, en einnig náinni loftslagssamvinnu Íslands, Noregs og ESB.

Meðal aðgerða sem ESB mun grípa til og líklegt er að hafi áhrif hér á landi, og þar með á íslensk sveitarfélög, má nefna:

  • Endurskoðun á viðskiptakerfi ESB með loftslagsheimildir (Emission Trading System).
  • Þar má m.a. nefna hugmyndir um að bæta siglingum og vegasamgöngum við kerfið.
  • Endurskoðun á tilskipun um orkuskatt (Energy Taxation Directive).
  • Endurskoðun á tilskipun um orkunýtni (Energy Efficiency Directive).
  • Endurskoðun á tilskipun um endurnýjanlega orku (Renewable Energy Directive).
  • Endurskoðun á reglugerð um landnýtingu og skógrækt (Land use change and forestry).
  • Endurskoðun á tilskipun um uppbyggingu á innviðum í tengslum við loftslagsvæna orkagjafa (Alternative fuels Infrastucture Directive).
  • Endurskoðun á reglugerð um losunarmörk fyrir bifreiðar (Emission performance standards for new passenger cars and for new light commercial vehicles).
  • Tillaga um loftslagsvæna orkagjafa fyrir siglingar og flugsamgöngur (Production and uptake of sustainable alternative fuels in the maritime and aviation sector).

Margir hafa gagnrýnt ESB og bent á að meira þarf ef duga skal og ljóst er að Fit-for-55 pakkinn er einungis upphafið á þeim aðgerðum sem vænta má frá ESB á næstu árum.