Mannauður

Nýtt mannauðs­torg Sam­bands­ins

6. október 2025

Sambandið hefur opnað sérstakt mannauðstorg á vefnum þar sem öllum helstu upplýsingum og leiðbeiningum um kjara- og mannauðsmál fyrir sveitarfélög er safnað saman.

Tilgangurinn með mannauðstorginu er að auðvelda sveitarfélögunum að finna rétt gögn, leiðbeiningar og fyrirmyndir á einum stað, og þannig hjálpa þeim að ná betri yfirsýn og skilvirkni í kjara- og mannauðsmálum. Fyrirmynd torgsins kemur frá ríkinu en þau hafa um tíma haldið úti mannauðstorgi ríkisins. 

Á mannauðstorginu eru skilgreindir málaflokkar tengdir kjara- og mannauðsmálum, og má finna upplýsingar og leiðbeiningar undir hverjum og einum málaflokki.

  • Starfsumhverfi sveitarfélaga — meðferð mannauðsmála, hlutverk mismunandi aðila og viðmið um góða starfshætti.
  • Mönnun og skipulag — greining á mannauðsþörf, skipulag vinnu og afleysinga, fjarvinna, breytingar á störfum og aukastörf.
  • Ráðningar — frágangur við auglýsingu starfa, mat á hæfni, ráðningarsamningar, móttaka nýrra starfsmanna og verktakasamningar.
  • Laun og kjaramál — upplýsingar um kjarasamninga, jafnlaunavottun, launatöflur og launavinnslu.
  • Vinnutími og viðvera — reglur um vinnutíma, hvíldartíma, orlof, veikindi, foreldraorlof o.fl.
  • Starfsþróun — námsleyfi, endur- og símenntun, fræðslusjóðir og starfsþróunaráætlanir.
  • Heilsa, öryggi og vinnuumhverfi — áhættumat, vinnuslys, einelti, vernd uppljóstrara, og reglur um trúnaðarmenn og öryggisnefndir.
  • Samskipti og endurgjöf — starfsmannasamtöl, samskiptasáttmálar, endurgjöf og verklag við áminningar.
  • Starfslok — málsmeðferð við uppsagnir, starfslokasamningar, biðlaun og vernd gegn ósanngjarnri uppsögn.
  • Sniðmát — tilbúin sniðmát varðandi mannauðsmál sveitarfélaga.