Fjármál

Um­sögn Sam­bands­ins um frum­varp til fjár­laga

7. október 2025

Sambandið hefur skilað inn umsögn um frumvarp til fjárlaga til fjárlaganefndar.

Í umsögninni leggur Sambandið áherslu á þrjú meginatriði sem eru:

1.     Endurgreiðsla virðisaukaskatts af innviðaframkvæmdum

Endurgreiðslu virðisaukaskatts af mikilvægum innviðaframkvæmdum sveitarfélaga í samræmi við það sem sveitarfélög á Norðurlöndunum búa við. Þá geta sveitarfélög unnið á innviðaskuldinni, ráðist í nýframkvæmdir og stutt við uppbyggingu íbúðahúsnæðis í landinu.

2.     Auka opinber framlög í innviðum sveitarfélaga er varða þjóðaröryggi

Auka þarf opinber framlög til að styðja við fjárfestingu í innviðum sveitarfélaga er varða þjóðaröryggi. Ýmsir innviðir sveitarfélaga varða beinlínis þjóðaröryggi og ættu að falla undir alþjóðlegar skuldbindingar þegar kemur að útgjöldum til varnartengdra verkefna.

3.     Full fjármögnun málaflokks fatlaðs fólks

Ljúka þarf fullri fjármögnun málaflokks fatlaðs fólks. Kostnaður eykst ár frá ári og enn eru biðlistar langir. Þá telur Sambandið mikilvægt að lögfesta SIS matið og eiga samtal við stjórnvöld um NPA og búsetuúrræði fatlaðs fólks. Jafnframt þarf að greina betur áhrif lögfestingar samnings SÞ um málefni fatlaðs fólks.

Annað sem Sambandið bendir á í umsögn sinni er að minni stuðningur við viðkvæma hópa geti aukið álag á félagsþjónustu sveitarfélaga. Þá þurfi menntamál einnig meiri athygli. Jafnframt er bent á mikilvægi ítarlegs áhrifamats ákvarðana stjórnvalda, hagræðingu aukinnar samvinnu ríkis og sveitarfélaga í stafrænni þjónustu og lækkun framlaga til sóknaráætlana landshluta og atvinnuráðgjafa á landsbyggðinni. Sambandið mun eiga samtöl við fulltrúa ríkisins á næstu vikum þar sem nánari grein verður gerð fyrir þessum áherslum.