Umhverfismál
Leitarniðurstöður
Upplýsingar um umhverfismál sveitarfélaga

Sveitarfélög eru lykilaðilar til að ná árangri í umhverfis- og loftslagsmálum og koma að þeim á margvíslegan hátt. Þau eru ábyrg fyrir ýmiskonar grunnþjónustu í umhverfismálum, s.s. hirðu og meðhöndlun úrgangs, rekstri fráveitna, vatnsveitna og hitaveitna og sinna hreinsun á landi sveitarfélagsins. Þau bera einnig ábyrgð á skipulagi á sínu svæði og segja þannig til um fyrirkomulag byggðar og mótun umhverfis. Þau skapa heilnæm lífsskilyrði fyrir landsmenn með því að starfrækja heilbrigðiseftirlit. Sveitarfélögin koma einnig að loftslagsmálum með ýmsum hætti, bæði til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og til að aðlaga samfélagið að þeim breytingum sem þegar hafa átt sér stað og fyrirséðar eru vegna loftslagsbreytinga.
Hlutverk Sambandsins í umhverfismálum er að veita sveitarfélögum sem bestar upplýsingar um hin ýmsu verkefni sem þeim ber að sinna á þessu sviði og sinna hagsmunagæslu í málaflokknum fyrir hönd sveitarfélaganna. Hér á umhverfissíðum Sambandsins má finna samansafn af gagnlegum upplýsingum s.s. handbækur, leiðbeiningar, styrkjatækifæri, o.fl. sem sveitarfélög eru hvött til að nýta sér.

