Húsnæðis-, innviða- og skipulagsmál
Skyldur sveitarfélaga á sviði húsnæðismála
Sveitarstjórnir bera ábyrgð á og hafa frumkvæði að því að leysa húsnæðisþörf íbúa sem þarfnast aðstoðar við húsnæðisöflun. Í því skyni skulu sveitarfélög greina húsnæðisþörf reglulega og gera áætlanir um hvernig henni verði mætt. Sveitarstjórn getur falið sérstakri húsnæðisnefnd eða annarri nefnd stjórn og framkvæmd húsnæðismála.
Samkvæmt lögum um húsnæðismál nr. 44/1998 og reglugerð nr. 1597/2022 skulu sveitarfélög:
- Greina húsnæðisþörf í tengslum við skipulagsáætlanir og mannfjöldaspár.
- Gera tíu ára húsnæðisáætlun, sem uppfærð er árlega og skilað í stafrænt kerfi Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.
- Tryggja framboð á lóðum í samræmi við húsnæðisáætlun.
- Endurskoða áætlanir með tilliti til niðurstöðu þarfagreiningar.
- Leita lausna fyrir einstaklinga sem þurfa aðstoð við húsnæðisöflun.
- Veita stofnframlög í samræmi við lög um almennar íbúðir nr. 52/2016 og reglugerð nr. 183/2020.
- Birta verklagsreglur og árlega skýrslu um framkvæmd húsnæðisáætlunar.
Árið 2024 var í fyrsta sinn samþykkt heildstæð húsnæðisstefna Íslands til 2038, ásamt fimm ára aðgerðaáætlun. Stefnan leggur áherslu á:
- Jafnvægi á húsnæðismarkaði.
- Skilvirka stjórnsýslu og gæði íbúða.
- Húsnæðisöryggi og félagslegan jöfnuð.
- Samstarf ríkis og sveitarfélaga um uppbyggingu innviða.
Sveitarfélög gegna lykilhlutverki í framkvæmd stefnunnar og eru hvött til að móta sér skýra stefnu í húsnæðismálum í samræmi við ný lög og reglugerðir. Kaflinn um opoinberan húsnæðisstuðning er óbreyttur.
Skyldur sveitarfélaga á sviði skipulagsmála
Skipulagsmál eru eitt af grunnverkefnum sveitarfélaga og snerta alla þætti samfélagsins – frá uppbyggingu íbúðabyggðar og atvinnusvæða til verndunar náttúru og menningarminja. Í skipulagi felst formleg og bindandi áætlun sveitarstjórnar um fyrirkomulag byggðar og mótun umhverfis, og er það forsenda framkvæmda og þróunar í sveitarfélaginu.
Sveitarfélög bera ábyrgð á gerð og samþykkt þriggja tegunda skipulagsáætlana:
- Aðalskipulag: nær til alls lands sveitarfélagsins og setur fram stefnu um landnotkun og þróun byggðar.
- Deiliskipulag: nær til afmarkaðra svæða og felur í sér nákvæmari skilmála um byggðarmynstur, lóðir og byggingar.
- Svæðisskipulag: samræmd stefna tveggja eða fleiri sveitarfélaga um sameiginleg hagsmunamál, t.d. samgöngur eða náttúruvernd.
Skipulagsáætlanir sveitarfélaga skulu vera í innbyrðis samræmi og taka mið af Landsskipulagsstefnu, sem felur í sér samræmda stefnu ríkisins í skipulagsmálum fyrir landið í heild. Gildandi stefna nær til tímabilsins 2024–2038 og fylgir henni fimm ára aðgerðaáætlun. Í stefnunni eru lögð áhersla á:
- Vernd umhverfis og náttúru.
- Velsæld samfélags.
- Samkeppnishæft atvinnulíf.
Sveitarfélög skulu vinna skipulagsáætlanir á stafrænu formi í samræmdum landupplýsingakerfum og tryggja samráð við íbúa og hagsmunaaðila í gegnum https://skipulagsgatt.is.
Skipulagsstofnun veitir leiðbeiningar og hefur eftirlit með framkvæmd skipulagslaga og skipulagsreglugerðar.