Heil­brigð­is­eft­ir­lit sveit­ar­fé­laga

Heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga hefur um árabil gegnt lykilhlutverki í verndun heilsu almennings og umhverfis. Eftirlitið er framkvæmt samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 og lögum um matvæli, og er í höndum heilbrigðisnefnda sem kosnar eru af sveitarstjórnum. Í landinu starfa nú níu heilbrigðiseftirlitssvæði sem sinna margvíslegu eftirliti með matvælum, mengunarvörnum, umhverfisgæðum og hollustuháttum.

Starfsemi heilbrigðiseftirlits er fjármögnuð að hluta með starfsleyfis- og eftirlitsgjöldum, en sveitarfélög kosta starfsemina að öðru leyti. Eftirlitið er samræmt af Umhverfisstofnun og Matvælastofnun, sem hafa yfirumsjón með hollustuháttum og matvælaeftirliti, en boðvald gagnvart starfsleyfisskyldum rekstri er í höndum heilbrigðisnefnda.

Boðaðar breytingar á fyrirkomulagi

Í september 2025 kynntu umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og atvinnuvegaráðherra áform um umfangsmiklar breytingar á heilbrigðiseftirliti sveitarfélaga. Samkvæmt tillögunum er gert ráð fyrir að:

  • Eftirlit með hollustuháttum og mengunarvörnum færist frá heilbrigðiseftirlitum til Umhverfis- og orkustofnunar.
  • Matvælaeftirlit færist til Matvælastofnunar.
  • Heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga verði lagt niður í núverandi mynd og eftirlitsaðilum fækkað verulega.

Markmiðið með breytingunum er að samræma reglur og framkvæmd eftirlits um land allt og tryggja skýrari ábyrgðarskiptingu.

Samtök heilbrigðiseftirlitssvæða á Íslandi (SHÍ) og fjölmörg sveitarfélög hafa lýst áhyggjum og andstöðu við áform ráðherranna. Bent er á að staðbundin þekking og nálægð við íbúa og atvinnulíf sé grundvallaratriði í skilvirku og faglegu eftirliti.

Samband íslenskra sveitarfélaga fylgist náið með þróun mála og leggur áherslu á að breytingar á opinberu eftirliti verði unnar í nánu samráði við sveitarfélögin. Sambandið styður við faglegt og sjálfbært heilbrigðiseftirlit sem þjónar hagsmunum íbúa og atvinnulífs um land allt.

Landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum er stefnumarkandi tólf ára áætlun sem fjallar um stefnumótun vegna uppbyggingar innviða á ferðamannastöðum, leiðum og svæðum. Í henni eru sett fram markmið um stýringu og sjálfbæra þróun, vernd náttúru og menningarsögulegra minja, öryggismál, skipulag og hönnun og ferðamannaleiðir.