Vel gafst að halda vinnustofur um gerð loftslagsstefnu sveitarfélaga í samstarfi við Vestfjarðastofu og verður leitast eftir því að vinna með öðrum landshlutasamtökum við vinnustofurnar framundan.

Í vor hélt Sambandið vinnustofur með fimm sveitarfélögum á Vestfjörðum um gerð loftslagsstefnu. Um var að ræða tilraunaverkefni um hvernig Sambandið gæti best stutt við sveitarfélög í því að uppfylla þetta lögbundna verkefni og ná árangri í loftslagsmálum. Vinnustofurnar voru skipulagðar og framkvæmdar í góðu samstarfi við Vestfjarðastofu og heppnuðust mjög vel.
Hvert og eitt sveitarfélag var heimsótt og tekin vinnustofa með kjörnum fulltrúum og starfsfólki á hverjum stað fyrir sig. Markmiðið var að koma sveitarfélögunum af stað þannig að þau hefðu góða tilfinningu fyrir því hvað loftslagsstefnur þurfa að innihalda, hver ávinningurinn af þeim er og hvað þau þyrftu að gera til að klára að móta stefnuna sína og aðgerðaáætlun í kjölfarið. Farið var yfir ferlið við gerð loftslagsstefnu, helstu uppsprettur gróðurhúsalofttegunda kortlagðar, farið í hugarflug um viðeigandi aðgerðir og Verkfærakista loftslagsvænni sveitarfélaga kynnt.
Í kjölfar hverrar vinnustofu voru niðurstöðurnar svo teknar saman og sendar á sveitarfélögin ásamt sniðmátum fyrir gerð loftslagsstefnu og aðgerðaáætlunar. Áframhaldandi stuðningur er síðan veittur með yfirlestri og jafnvel stuttum fjarfundum.
Í ljósi þess hve vel þessar vinnustofur á Vestfjörðum gengu býður Sambandið nú upp á samskonar vinnustofur fyrir sveitarfélög í öðrum landshlutum. Vel gafst að halda vinnustofurnar í samstarfi við Vestfjarðastofu og verður leitast eftir því að vinna með öðrum landshlutasamtökum við vinnustofurnar framundan. Bæði sveitarfélög og landshlutasamtök geta haft samband og óskað eftir vinnustofu um gerð loftslagsstefnu.