Stjórnsýsla
Vinnustofa um skráningu lögheimilis án tilgreinds heimilisfangs
28. ágúst 2025
Sambandið býður sveitarfélögum að taka þátt í vinnustofu um skráningu lögheimilis í frístundabyggð. Vinnustofan er ætluð kjörnum fulltrúum og starfsfólki sveitarfélaga.

Undanfarin ár hefur færst mjög í vöxt að einstaklingar flytji í frístundabyggð. Frístundabyggð er ekki ætluð til fastrar búsetu og frístundahús því ekki skilgreind sem íbúðarhúsnæði. Ef óvissa er um lögheimili er þó heimilt að skrá einstakling til lögheimilis í sveitarfélagi án tilgreinds heimilisfangs og er það sú skráning sem einstaklingar sem flytja í frístundahús fá samkvæmt þjóðskrá.
Þessi staða veldur ákveðinni óvissu fyrir sveitarfélög enda ekki ljóst hvaða þjónustu sveitarfélögum ber að veita í slíkum tilfellum.
Í stefnumörkun Sambandsins er að finna eftirfarandi áherslu:
"Sambandið beiti sér fyrir breytingum á lögum um lögheimili og aðsetur þar sem sérstaklega verið litið til fjölgunar þeirra sem skrá lögheimili án tilgreinds heimilisfangs. Við útfærslu lagabreytinga verði unnið út frá þeirri meginreglu að skipulag sveitarfélaga ráði því hvar heimilt er að skrá lögheimili og einnig hvar sveitarfélögum er skylt að veita þjónustu við íbúa."
Vinnustofan verður haldinn fimmtudaginn 11. september klukkan 10:30-14 á Hilton Reykjavík Nordica, Suðurlandsbraut 2, 108 Reykjavík. Nauðsynlegt er að skrá þátttöku á tenglinum hér að neðan.