Fjármálaráðstefna
Sveitarfélögin eru burðarstoðir samfélagsins
2. október 2025
Fjármálaráðstefna sveitarfélaga hófst í morgun, en hún fer fram á Hilton Reykjavík Nordica í dag og á morgun. Yfir 500 fulltrúar sveitarfélaga um allt land ræða þau málefni sem helst brenna á sveitarfélögunum, en áherslan í ár er á uppbyggingu innviða og fjármagnskostnað sveitarfélaga.
Jón Björn Hákonarson, formaður stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, setti ráðstefnuna og fór fjölbreytt verkefni sveitarfélaga. Sagði hann að innviðir væru ekki bara steypa, stál og malbik. Þeir væru burðarstoðir samfélagsins. Gæði samgangna ráði því hvort börnin okkar komast örugg í skólann, hvort eldra fólk fær þjónustu og hvort fyrirtæki geta þróast og skapað störf. Traust raforkukerfi með nægu framboði, vatnsveitur, örugg fjarskipti og húsnæði væru ekki lúxus, heldur forsenda lífs í nútímasamfélagi. Eitt af því sem Sambandið hafi beitt sér fyrir undanfarið er endurgreiðsla virðisaukaskatts af innviðaframkvæmdum sveitarfélaga.
„Þessi skattur er í reynd skattlagning á samfélagsþjónustu – á grunnstoðir sem allir landsmenn reiða sig á. Í fyrra fjárfestu sveitarfélögin fyrir 76 milljarða króna í innviðum, en tæpir 15 milljarðar þess fóru beint í greiðslu virðisaukaskatts – þetta eru aðeins fjárfestingar A-hlutans sem er fjármagnaður með skattfé. Af hverju þarf Vestmannaeyjabær að greiða 24% virðisaukaskatt af framkvæmdum við nýja vatnslögn til bæjarins?,“ sagði Jón Björn meðal annars í ávarpi sínu. Þá sagði hann að hið opinbera, ríki og sveitarfélög, væru samherjar í að byggja upp gott samfélag og þjónusta íbúa sína, og að það væru víða tækifæri til að einfalda hlutina og auka samvinnu í samskiptum þessara tveggja stjórnvalda í landinu.
Daði Már Kristófersson, fjármálaráðherra, Eyjólfur Ármannsson, innviðaráðherra ávörpuðu einnig ráðstefnuna. Þá var fjöldi annarra áhugaverðra erinda á dagskrá þar sem áherslan var á uppbyggingu innviða og fjármögnun sveitarfélaga.
Fjármálaráðstefnunni lýkur svo á tveimur málstofum, sem fram fara fyrir hádegi á morgun, föstudag. Á annarri málstofunni verður áherslan á fjármál, rekstur og áhættustýringu, en hin málstofan um umhverfið, menntun og velferð.