Stafræn vegferð
Sveitarfélög í námsferð til Danmerkur um stafræna umbreytingu
8. september 2025
Í byrjun september fóru 47 fulltrúar frá sautján sveitarfélögum í námsferð til Danmerkur þar sem sjónum var beint að stafrænni umbreytingu í opinberri stjórnsýslu. Ferðin var skipulögð í samstarfi Sambands íslenskra sveitarfélaga og Samtaka stjórnenda á stjórnsýslu- og fjármálasviðum sveitarfélaga (SSSFS) og var markmiðið að öðlast dýpri skilning á því hvernig danskir jafningjar nýta stafrænar lausnir til að bæta þjónustu og auka skilvirkni.
Dagskráin var fjölbreytt og veitti þátttakendum víðtæka innsýn í þróun og innleiðingu stafrænna verkefna í Danmörku. Kynnt var hvernig danska sambandið (KL) leiðir sameiginlegar stafrænar lausnir og hvernig upplýsingatæknirekstur sveitarfélaga verða sameinaður í færri einingar. Þá fengu þátttakendur að kynnast starfsemi KOMBIT sem gegnir lykilhlutverki við samræmingu og innleiðingu sameiginlegra lausna. Auk þess fengum við innsýn í fjármál sveitarfélaga og nýtingu gagna til samanburðar og stefnumótunar.
Sérstaka athygli vakti heimsókn til Glostrup þar sem kynnt var hvernig velferðartækni er nýtt í þjónustu við aldraða og hvernig tæknin hefur bætt bæði vinnuumhverfi starfsfólks og þjónustu við íbúa. Þá var einnig áhersla lögð á samstarf sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu í Kaupmannahöfn, þar sem þátttakendur fengu að sjá hvernig samvinna um stafræna þróun hefur skilað árangri. Í Gladsaxe kynntu fulltrúar sveitarfélagsins hvernig gervigreind er nýtt til að auka skilvirkni, meðal annars með sjálfvirkum bókhaldslausnum og verkfærum sem styðja félagsráðgjafa í samskiptum við íbúa.
Þátttakendur lýstu ánægju með ferðina og bentu á að hún hafi veitt bæði innblástur og hagnýta sýn á hvernig samstarf, nýsköpun og markviss stefna geta skilað árangri í stafrænni umbreytingu sveitarfélaga. Þá var upplifunin sú að Danir hafi byggt upp öflugt samstarf sem auðveldar framgang verkefna og geti íslensk sveitarfélög dregið af því mikilvægan lærdóm til framtíðar.