Umhverfis Ísland

Staða lofts­lags­mála hjá veit­ar­fé­lög­um: Nið­ur­stöð­ur könn­un­ar

29. október 2025

Niðurstöður úr könnun um stöðu loftslagsmála hjá sveitarfélögum landsins liggja nú fyrir og eru strax farnar að nýtast Sambandinu við að bæta þjónustu sína við sveitarfélögin og sinna markvissari hagsmunagæslu á sviði loftslagsmála.

Umhverfis- og innviðateymi Sambandsins sendi út könnun á alla framkvæmdastjóra sveitarfélaganna þann 28. apríl 2025 til að kanna stöðu loftslagsmála hjá sveitarfélögum. Könnunin innihélt 29 spurningar, svarfrestur var gefinn til 19. maí 2025 og bárust alls 35 svör. Helstu niðurstöður könnunarinnar eru teknar saman hér að neðan en einnig var unnin ítarlegri samantekt á niðurstöðunum.

Tekið skal fram að þegar orðalagið ,,í flestum tilvikum‘‘ eða ,,flest sveitarfélög‘‘ eða annað sambærilegt er notað er átt við um þau sveitarfélög sem svöruðu könnuninni. Gera má ráð fyrir að einhver samsvörun sé á milli þeirra niðurstaðna sem teknar eru saman hér og þeirra aðstæðna sem eru í sveitarfélögum sem ekki svöruðu könnuninni, en erfitt er að segja til um nákvæmlega hversu vel er hægt að yfirfæra niðurstöðurnar á öll sveitarfélög landsins.

Loftslagsstefnur, aðgerðaáætlanir og losunarbókhald sveitarfélaga

  • Tæplega helmingur sveitarfélaga (43%) eru með loftslagsstefnu í gildi, rúmlega helmingur sveitarfélaga (51%) stefnir að því að setja sér loftslagsstefnu á næstu 12 mánaða og 6% sveitarfélaga hyggjast ekki setja sér loftslagsstefnu.
  • 37% sveitarfélaga hafa kortlagt losun gróðurhúsalofttegunda frá eigin rekstri, einhver sveitarfélög hafa kortlagt samfélagslosun, losun frá iðnaði og losun vegna landnotkunar, 49% sveitarfélaga hafa ekki metið losun sína en stefna að því á næstu 12 mánuðum og 14% sveitarfélaga hyggjast ekki meta losun gróðurhúsalofttegunda.
  • Um fjórðungur sveitarfélaga (23%) eru með aðgerðaáætlun í loftslagsmálum í gildi, rúmlega helmingur sveitarfélaga (57%) stefnir að því að vinna aðgerðaáætlun á næstu 12 mánuðum og 20% sveitarfélaga hyggjast ekki vinna aðgerðaáætlun í loftslagsmálum.
  • Skortur á fjármagni, mannauði og tíma eru helstu hindranir sveitarfélaga við gerð aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum.

Loftslagsaðgerðir sveitarfélaga

  • 80% sveitarfélaga hafa ráðist í loftslagsaðgerðir, 60% sveitarfélaga eru með aðgerðir í framkvæmd og 31% sveitarfélaga eru með aðgerðir í undirbúningi.
  • Helstu loftslagsaðgerðir sveitarfélaga eru: rafvæðing bíla og tækja, skógrækt, bætt úrgangsstjórnun, LED-væðing, stuðningur við vistvænar byggingaraðferðir, stuðningur við breyttar ferðavenjur og varmadæluvæðing.
  • 14% sveitarfélaga hafa ráðist í endurheimt votlendis á landi í sinnu eigu, 26% sveitarfélaga hafa ráðist í uppgræðslu á landi í sinni eigu og 40% sveitarfélaga hafa ráðist í skógrækt á landi í sinni eigu.
  • Einungis 6% sveitarfélaga hafa metið áhrif loftslagsbreytinga á sveitarfélagið í heild sinni, 11% hafa metið áhrif loftslagsbreytinga fyrir ákveðinn hluta eða ákveðna starfsemi í sveitarfélaginu, 43% sveitafélaga hafa ekki metið áhrif loftslagsbreytinga en stefna að því að framkvæma slíkt mat en 37% sveitarfélaga hyggjast ekki gera svo.
  • 26% sveitarfélaga hafa ráðist í aðlögunaraðgerðir, 17% eru með aðgerðir í framkvæmd, 14% með aðgerðir í undirbúningi, 29% hyggjast ráðast í stefnumörkun um aðlögun að loftslagsbreytingum en 40% sveitarfélaga hyggjast ekki ráðast í aðlögunaraðgerðir.

Loftslagsstjórnsýsla sveitarfélaga

  • 49% sveitarfélaga eru einungis með hluta úr starfsgildi í loftslagsmálum, 11% með eitt starfsgildi, 6% með tvö eða þrjú starfsgildi en 34% sveitarfélaga eru ekki með neinn starfsmanna sem ber ábyrgð á loftslagsmálum.
  • 89% sveitarfélaga telja að starfsfólk sitt sem sinnir loftslagsmálum þurfi meiri þjálfun.
  • 54% sveitarfélaga hafa átt í samstarfi um loftslagsmál við sín landshlutasamtök, 6% hafa átt í samstarfi við nágrannasveitarfélög og 3% hafa átt í samstarfi við sveitarfélög annars staðar á landinu.
  • 6% sveitarfélaga hafa mikla reynslu af því að nýta sér Verkfærakistu loftslagsvænni sveitarfélaga, 37% sveitarfélaga hafa einhverja reynslu af því að nýta sér verkfærakistuna en 57% sveitarfélaga hafa enga reynslu af því að nýta sér hana.

Niðurstöður könnunarinnar eru þegar farnar að nýtast umhverfis- og innviðateyminu við að bæta þjónustu sína við sveitarfélögin og sinna markvissari hagsmunagæslu á sviði loftslagsmála, m.a. í tengslum við drög að nýjum lögum um loftslagsmál sem hafa nýlega verið í samráðsferli.