Sameiginlegur málsvari sveitarfélaganna
19. desember 2025
Tímaritið Sveitarstjórnarmál er komið út. Er þetta áttugasti og fimmti árgangur ritsins sem fyrst var gefið út árið 1941. Tímaritið sem nú kemur út er tileinkað áttatíu ára sögu Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Að þessu sinni var ákveðið að gefa tímaritið út á rafrænu formi og vonumst við til að þannig nái það meiri útbreiðslu en væri því dreift á pappír.
Í leiðara tímaritsins segir Jón Björn Hákonarson, formaður Sambandsins, m.a.
„Þannig er hlutverk Sambandsins fyrst og fremst fólgið í að vera sameiginlegur málsvari sveitarfélaganna og vinna að sameiginlegum hagsmunamálum þeirra og samstarfi. ... Við megum aldrei gleyma því að hið opinbera, ríki og sveitarfélög, eru samherjar í að byggja upp gott samfélag og þjónusta íbúa sína. Víða liggja tækifæri til að einfalda hlutina og auka samvinnu í samskiptum þessara tveggja stjórnvalda í landinu. Við stöndum bæði frammi fyrir brýnum málum sem þarf að leysa og fjölda tækifæra til að ná árangri fyrir íslenskt samfélag. Það gerum við betur saman en í sitthvoru lagi á jafnræðisgrunni enda bæði stjórnvöld á sínu sviði. “
Garðar H. Guðjónsson, blaðamaður Sveitarstjórnarmála, hafði veg og vanda að textanum í blaðinu en söfnun mynda var í höndum Ingibjargar Hinriksdóttur, tækni- og upplýsingafulltrúa Sambandsins, sem jafnframt var ritstjóri tímaritsins. Davíð Þór Guðlaugsson hjá Myndróf slf. sá um umbrot.
Tímaritið Sveitarstjórnarmál, 85. árgangur.