Evrópusamvinna
Öryggismál, lýðræði og sjálfbær auðlindastjórnun til umfjöllunar á stjórnarfundi Evrópusamtaka sveitarfélaga
30. júní 2025
Leiðtogar borga, bæja og sveitarfélaga í Evrópu komu saman í Osló 23.-24. júní 2025. Á fundinum var fjallað um öryggismál og stöðu lýðræðis á tímum óvissu og átaka. Þá var fjallað um mikilvægi sjálfbærrar auðlindastjórnunar við að tryggja aðgang að heilnæmu vatni í álfunni.

Umfjöllun Evrópusamtaka sveitarfélaga
Á fundinum var fjallað um þá stöðu sem nú er uppi í Evrópu og hlutverk sveitarfélaga þegar kemur að því að tryggja öryggi íbúa og að verja lýðræðisleg gildi og mannréttindi í álfunni. Þar kom fram að á tímum þegar stríð geisar í Evrópu og spenna fer vaxandi í heimsmálum og alþjóðaviðskiptum skiptir samstarf borga, bæja og sveitarfélaga enn meira máli en áður. Þá var rætt um áhrif falsfrétta og utanaðkomandi afskipta af lýðræðislegri umræðu og kosningum. Í því tilliti var rætt um mikilvægi þess að styrkja lýðræðisstofnanir, tryggja gagnsæja stjórnsýslu og virkt íbúalýðræði.
Sjálfbær auðlindastjórnun var einnig til umræðu á fundinum og þá með hvaða hætti sveitarfélög og svæðisstjórnir geti tekist á við vaxandi auðlindaskort á sjálfbæran hátt. Á fundinum var lögð áhersla á aðgang íbúa að heilnæmu neysluvatn, en sem dæmi má nefna að nýverið birti Hofnor - fyrirtækið sem sér um öflun og dreifingu neysluvatns í Kaupmannahöfn – skýrslu þar sen fram kemur að ef ekki verði gripið til aðgerða má búast við miklum skorti á heilnæmu neysluvatni á Kaupmannahafnarsvæðinu á næsta áratug. Á fundinum koma fram að tryggja þarf aðkomu sveitarfélaga og svæðisstjórna að ákvörðunartöku í tengslum við sjálfbæra auðlindastjórnun og við innleiðingu hringrásarhagkerfis. Nálægðin við íbúa, staðbundin áhrif vegna skorts á náttúruauðlindum og aðlögunargerðir vegna loftslagsbreytinga, eru allt hlutir sem undirstrika mikilvægi sveitarstjórnarstigsins.
Evrópusamtök sveitarfélaga
Samband íslenskra sveitarfélaga á aðild að Evrópusamtökum sveitarfélaga. Samtökin eru í forsvari fyrir rúmlega 100.000 sveitarfélög og héruð í Evrópu. Hlutverk samtakanna er að vinna að framgangi hugsjóna um sameinaða Evrópu sem grundvallist á sjálfsstjórnarrétti sveitarfélaga og lýðræðislegum gildum.